Breytingar á nefndaskipan – mikilvægi atvinnu og nýsköpunarnefndar
Málefni vorsins hjá bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa verið umræður um breytingar á nefndaskipan og fastaráðum bæjarins. Þessi umræða var hluti af stærra máli sem eru hagræðingaraðgerðir bæjarins og er efni í annan pistil.
En hvað varðar fastanefndir var tillagan sú að þrjár nefndir yrðu lagðar niður eða sameinaðar öðrum. Það var á margan hátt áhugaverð nálgun, því í upphafi kjörtímabils var nefndum fjölgað um tvær og verkefnum endurútdeilt á milli nefnda. Ein þeirra er atvinnu- og nýsköpunarnefnd sem var stofnuð í upphafi kjörtímabils. Í þeim tillögum sem lagðar voru fram nú á vordögum, var lagt til að þessi nefnd yrði lögð niður og verkefni hennar færð undir bæjarráð. Það töldum við ekki góða ákvörðun í þeirri stöðu sem sveitarfélagið er í, í dag.
Eftir samtal við sjálfstæðismenn kom í ljós að báðir flokkar ætluðu að leggja fram tillögu þess efnis að þessu yrði breytt og nefndin héldi starfsemi sinni og vægi. Við lögðum því fram sameiginlega tillögu.
Af hverju er nefndin mikilvæg?
Ástæða þess að við í Vinum Mosfellsbæjar teljum mikilvægt að halda þessari nefnd inni, snýr að því að vera með nefnd sem hvetur til nýsköpunar og styður við fjölbreytt atvinnulíf. Nefndin er búin að setja á laggirnar atvinnustefnu og það er hennar hlutverk að fylgja stefnunni eftir. Nefndin vinnur þvert á svið bæjarins; skipulagsmál, menntun og umhverfi og hefur það hlutverk að horfa til atvinnulífs sem byggir á styrkleikum okkar og vinna með veikleikana.
Við þurfum að stíga fram og spyrja af hverju eigendur fyrirtækja sjá ekki hag sinn í að setja fyrirtæki sín niður í okkar bæ og búa til hvata fyrir fyrirtækin til að þau sjái hag sinn í að koma hingað. Með auknum fjölda fyrirtækja eykst umferð fólks í bænum á dagvinnutíma, sem aftur kallar á aukna þjónustu. Fólkið þarf að borða og það vill versla. Í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er, skiptir þessi þáttur miklu máli fyrir okkur. Við teljum einnig að nefndin séu betur til þess fallin en bæjarráð að fylgja eftir markaðsáætlun, atvinnustefnu og nýsköpunarhugmyndum bæjarins.
Hvaða möguleikar eru fyrir hendi?
Atvinnu og nýsköpunarnefnd gæti staðið fyrir breiðvirku samstarfi stofnana bæjarins í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Við þurfum að gera bæinn aðlaðandi fyrir fyrirtæki og stofnanir, það þarf að ákveða hvaða ívilnanir verða til staðar og hvaða lóðir væru klárar. Þessar ákvarðanir eru pólitískar og því mikilvægt að hafa samtal við fundarborðið.
Við þyrftum einnig að hugsa til þess að vera með sérstakan starfsmann í því að markaðssetja Mosfellsbæ, sem spyr þeirra spurninga sem ég nefndi fyrr – af hverju sjá fyrirtækin ekki hag sinn í að koma hingað. Það þarf einnig að horfa til þess að efla samvinnu innan sveitarfélagsins, á milli sveitarfélagsins, atvinnulífs og skóla. Það kostar að fara þessa leið en fjárhagslegur ávinningur er margfalt meiri. Ef við viljum hugsa um nýsköpun að þá þarf að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi og huga að aðstöðu fyrir slíka starfsemi.
Okkur þykir miður að tillagan hafi verið felld, því við teljum þetta mikilvæga og nauðsynlega vinnu til að horfa til framtíðar fyrir bæinn okkar. Öflug nefnd leiðir öfluga stefnu og heldur henni á lofti.
Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar