Börnin og skólasamfélagið

Sveinn Óskar Sigurðsson

Börnin okkar eru mörg áttavillt. Það er ekki að undra að þau séu það, séum við, fullorðna fólkið og aðstandendur, það einnig.
Leikskólinn og grunnskólinn búa við að sveitarfélög setja sér stefnu sem er óljós og án mælanlegra markmiða sem hægt er að botna í. Leikskólar og grunnskólar fylgja aðalnámskrám sem fáir eða jafnvel enginn nær að höndla enda efnið svo óljóst að ekki er hönd á festandi hvert ber að stefna með nám barnanna. Við tekur framhaldsskólinn og þar starfa 27 skólar sem hver um sig ræður stefnunni og lítið eða ekkert samráð þar á milli. Kennarar við framhaldsskóla eru farnir að taka við börnum úr grunnskólum sem hafa ekki næga hæfni til að lesa sér til gagns.
Í Mosfellsbæ starfa ótal hæfir kennarar á þessum skólastigum og vilja vel. En lesa má úr greinum, ítarlegum skýrslum og í samtölum við fagfólk sem og foreldra að víða er pottur brotinn. Mikið álag er á kennurum og oft meira sett á þeirra herðar en ætlunin var. Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir sem valda vandanum eða þá ákvarðanaleysi. Ríkjandi stjórnvöld hverju sinni eiga það til að reyna eftir fremsta megni að fela stöðuna, dylja vandann og vilja helst ekki ræða hann. Það skiptir litlu hvað efsta stig stjórnsýslunnar gerir hvað skólakerfið varðar, það eru kennararnir sem verða að bjarga málunum hvað sem á dynur. Það eru þeir sem mæta til vinnu og þurfa að standa vaktina gangvart börnunum og aðstandendum þeirra í sífellt flóknara samfélagi.
Kjarnahlutverk skólans á að vera að skapa þokkalegt næði þar sem nemandi hefur göngu sína upp löngu brekkuna. Þar verður hver og einn nemandi að eiga kost á að getað öðlast þjálfun, geta glímt við verkefni og lært. Til að það sé mögulegt má skólinn ekki vera á e.k. viðbúnaðarstigi í björgunarleiðangri alla daga. Skóli sem er starfandi í e.k. æðibunugangi er ekki þessi staður fyrir börnin til að koma þeim upp lengstu og bröttustu brekkurnar. Við eigum að tryggja að skólinn sé skjól til mennta, skjól til að geta öðlast þekkingu og getu til að takast á við lífið fram undan.
Hér á landi er talið að um 34% barna þurfi á skólaferli sínum á sérkennslu að halda í meiri eða minni mæli og lítið sem ekkert vitað hvernig þetta flokkast. Í Svíþjóð nemur þetta hlutfall um 5,8%, Noregi 7,7% og Danmörku 6,6%. Þetta er með miklum ólíkindum.
Við í Miðflokknum höfum svo ótal oft fjallað um þetta efni og margoft rætt málefni barna, aðstæður í skólum hér í Mosfellsbæ og hag barnafólks í bænum sem við viljum setja í fyrsta sæti. Enn og aftur minnum við á þetta og munum halda því áfram. Það er að mörgu að hyggja og afskaplega mikilvægt að framtíðarforysta hér í bænum leggi höfuðáherslu á þennan málaflokk og gefi ekkert eftir þegar velta á við steinum til að tryggja bættan hag barna og barnafólks.
Með frábærum kennurum og öðru starfsfólki skólanna er markmiðið að ná árangri.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ