Börnin í forgrunni
Meirihluti B-, S- og C-lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar leggur mikla áherslu á málefni barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra enda vitum við að það þarf þorp til að ala upp barn.
Eins og komið hefur fram samþykkti bæjarstjórn að setja fram sérstaka aðgerðaáætlun í þágu barna árið 2025. Sú aðgerðaáætlun er einstök í starfi sveitarfélagsins.
Einnig er unnið að innleiðingu hugmyndafræði Barnvæns sveitarfélags ásamt því að sjónum verður sérstaklega beint að börnum í framkvæmd Okkar Mosó árið 2025.
Barnvænt sveitarfélag
Barnvænt sveitarfélag skuldbindur sig til þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og vinna markvisst eftir hugmyndafræði hans. Vonir standa til þess að næsta vor ljúki innleiðingarferli og í framhaldinu fái Mosfellsbær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag. Innleiðing sáttmálans þýðir að sveitarfélagið noti hann sem viðmið í sínu starfi og að ákvæði hans verði rauður þráður í starfsemi þess.
Segja má að starfsfólk sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar setji upp barnaréttindagleraugu til að rýna alla verk- og ákvarðanatökuferla innan sveitarfélagsins með hliðsjón af sáttmálanum. Þeir grunnþættir sáttmálans sem byggt er á eru þekking á réttindum barna, að ætíð skuli byggja ákvarðanir á því sem barninu sé fyrir bestu, jafnræði allra barna, virðing fyrir skoðunum barna og réttur allra barna til lífs og þroska. Ljóst er að innleiðing hugmyndafræðinnar styður við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Krakka Mosó
Ákvörðun hefur verið tekin um að þátttaka í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó verði bundin við börn árið 2025. Sú ákvörðun styður sannarlega við innleiðingu barnvæns sveitarfélags. Útfærsla og framkvæmd kosninganna verður unnin í samstarfi stjórnsýslunnar og skólanna á vormánuðum og verður mjög áhugavert að fylgjast með því verkefni. Krakka Mosó verður spennandi þáttur í að efla lýðræðislega þátttöku barna og skilning á lýðræðislegu ferli.
Börnin okkar
Að síðustu nefni ég til sögunnar aðgerðaáætlunina Börnin okkar sem bæjarstjórn samþykkti að setja 100 milljónir í á árinu 2025. Þetta er viðbótarfjármagn við það margvíslega starf sem sveitarfélagið sinnir nú þegar í þágu barna. Í aðgerðaáætluninni Börnin okkar, sem unnin var í miklu samstarfi hagaðila, er áherslan sett á almennar forvarnir, snemmtækan stuðning við börn og styrkingu barnaverndar.
Ekki þarf að fjölyrða um þá ógnvænlegu þróun sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi og nægir þar að nefna mikla fjölgun tilkynninga á landsvísu um börn sem sýna áhættuhegðun. Þess vegna eru snemmtækur stuðningur og styrking barnaverndar svo mikilvægir þættir í aðgerðaáætluninni.
Sem dæmi um snemmtækan stuðning og almenn forvarnaverkefni má nefna aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu og félagslegri ráðgjöf, hækkun frístundaávísunar, lýðheilsuverkefni fyrir unglinga í íþróttahúsum, aukin fræðsla og stuðningur fyrir foreldra, gerð samskiptasáttmála skólasamfélagsins og reglur um snjallsímanotkun á skólatíma svo eitthvað sé talið.
Ef samfélag vill bæta uppeldisskilyrði barna sinna, gera umhverfi þeirra enn þroskavænlegra og já almennt sinna börnum og ungmennum betur þá eru forvarnir af ýmsum toga lykilatriði. Meirihluti B-, S- og C-lista hefur í sínum störfum lagt áherslu á mikilvægi forvarna og eflingu lýðheilsu til að bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga og hópa. Um þær áherslur hljótum við að vera sammála.
Ég sendi Mosfellingum öllum bestu jólakveðjur og óskir um enn barnvænna nýtt ár 2025.
Anna Sigríður Guðnadóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar