Börn vilja reglur og mörk

Það er óhætt að segja að Gróa Karlsdóttir þekki ungviðið í Mosfellsbænum betur en margur annar enda hefur hún starfað lengi sem skólaliði eða í 25 ár.
Gróa aðstoðar nemendur í leik og starfi og leiðbeinir þeim í umgengni og samskiptum þeirra við aðra nemendur og starfsmenn skólans. Hún segir starfið fjölbreytt og gefandi og það sé mikið ríkidæmi að fá tækifæri til að starfa með unglingum, sjá þau vaxa og dafna og takast á við lífið.

Gróa fæddist að Hálsi í Kjós 22. nóvember 1959. Foreldrar hennar eru þau Hulda Sigurjónsdóttir og Karl Andrésson, þau eru bæði látin.
Systkini Gróu eru Gestur Ólafur f. 1948, Sigurjón f. 1950, Ragnar f. 1953 d. 2000, Andrés f. 1961, Sólveig f. 1965 og Ævar f. 1971.

Oft líflegt á bæjarhlaðinu
„Ár bernskunnar í Kjósinni voru góð. Á Hálsi bjuggu pabbi og bræður hans tveir með fjölskyldum sínum, krakkaskarinn var því stór og oft líflegt á bæjarhlaðinu.
Ég flutti 7 ára að Eyrarkoti þar sem foreldrar mínir tóku við þjónustu Pósts og síma. Það var ávallt mannmargt í eldhúsinu í Eyrarkoti, mikill gestagangur. Í minningunni var allan daginn verið að elda, baka og vaska upp.
Ég var ekki gömul þegar ég fór að aðstoða þar við hin ýmsu verkefni. Eitt sinn var ég ein heima á meðan mamma og pabbi skruppu í bæinn, þá var pantaður matur fyrir tvo veghefilsstjóra en mamma sá um mat fyrir Vegagerðina og fleiri fyrirtæki þegar á þurfti að halda. Ég var ekkert að malda í móinn, náði í kjötbollur í frystinn og reddaði hádegismatnum.“

Skólastýran bað með okkur bænirnar
„Í Eyrarkoti var fjaran spennandi leikvöllur og sauðburðurinn skemmtilegasti tíminn. Eitt vorið var pabbi á sjúkrahúsi, ég og Addi bróðir vorum að reyna að bjarga okkur og þurftum að sækja kind með lömb niður á tún, hún var ansi stygg þannig að við tókum með okkur hlera sem við höfðum fyrir framan okkur svo hún myndi ekki stanga okkur og heim fór hún.
Ég var í barnaskólanum Ásgarði frá 7-12 ára og var í heimavist öll árin en í skólanum voru um 40 nemendur. Það var oft erfitt fyrir lítil hjörtu en starfsfólkið hugsaði vel um okkur og ég man að skólastýran kom alltaf á kvöldin og bað með okkur bænirnar.
Eftir skólatíma tóku við leikir bernskunnar sem sjaldan sjást núna. Fallin spýta, stórfiskaleikur, yfir, parís og teygjutvist. Þegar Laxáin var ísilögð skelltum við okkur á skauta. Endalaus ævintýri milli fjalls og fjöru.“

Frábær vetur að Varmalandi
„Í 7. og 8. bekk var ég í Álftamýrarskóla og bjó þá hjá Gesti bróður, þar aðstoðaði ég við að passa frændur mína. Síðan lá leiðin í Gaggó Mos og ég útskrifast þaðan 1976. Þar eignaðist ég mína bestu vinkonu, Helgu Guðjónsdóttur, það líður varla sá dagur að við heyrumst ekki eða hittumst yfir góðum kaffibolla.
Eftir grunnskóla lá leiðin í Húsmæðraskólann að Varmalandi og var það frábær vetur. Þar eignaðist ég margar góðar vinkonur og höfum við verið saman í saumaklúbbi síðan.“

Skelltu sér í heimsókn til Kína
Gróa er gift Lárusi E. Eiríkssyni rafverktaka en þau fluttu í Mosfellsbæ 1982. Börn þeirra eru Ólafía f. 1979, Karl Már f. 1982, Eiríkur f. 1983 og Magnús f. 1987.
„Ömmugullin mín eru orðin fimm, Ísmey, Leópold, Bjartur, Tómas, Már og Muni. Þau eiga stóran part í mínu hjarta og ég veit ekkert betra en að hafa þau hjá okkur. Við erum svo heppin að öll börnin okkar eru búsett í Mosfellsbæ,“ segir Gróa og brosir.
Gróa nýtur þess að eiga góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum á ferðalagi um landið eða í sumarbústaðnum í Kjósinni og hún segir handavinnu líka notalegt áhugamál. Eftirminnilegasta ferð þeirra hjóna á erlendri grundu er heimsókn þeirra til vinahjóna í Shanghai í Kína. Þar skoðuðu þau meðal annars hinn sögufræga borgarmúr í Peking og hinn stórkostlega Terrakottaher í Xiam.
Gróa er líka í skemmilegum hópi kvenna sem nefnist Vatnadísirnar, þær stunda vatnsleikfimi tvisvar í viku undir stjórn Sigrúnar Másdóttur. Hún segist endurnærð á sál og líkama eftir hvern tíma.

Skólinn fékk nýtt nafn í haust
Fyrstu árin í Mosfellsbæ var Gróa heimavinnandi húsmóðir og dagmamma, hún segir að það hafi verið dásamlegt að hafa haft tækifæri til að vera heima með börnin fyrstu árin. Þá voru nokkrar nágrannakonur hennar einnig heima og úr varð náinn vinahópur sem heldur saman enn í dag.
Gróa hóf störf í eldri deild Varmárskóla árið 1994 en frá árinu 1996 hefur hún starfað samfellt sem skólaliði eða í 25 ár. „Í eldri deildinni eru 4 bekkjardeildir, 7.– 10. bekkur. Skólinn fékk nýtt nafn í haust og heitir nú Kvíslarskóli en yngri deildin hélt Varmárskólanafninu. Ég hef unnið þarna í gegnum tíðina með frábæru samstarfsfólki sem heldur hópinn í leik og starfi.“

Hafragrauturinn er vinsæll
Ég spyr Gróu í hverju starf hennar felist. „Starf mitt er mjög fjölbreytt, ég mæti fyrst á morgnana og helli upp á kaffi fyrir samstarfsfólkið. Síðan tek ég á móti börnunum ásamt stuðningsfulltrúum sem sjá um gæsluna með mér. Við aðstoðum einnig í matsalnum og hafragrauturinn er afar vinsæll get ég sagt þér. Það er frábært að allir hafi aðgang að góðum mat því þá líður öllum betur.
Ég sé líka um gæslu og eftirlit á göngum skólans og hef auga með nemendum sem lenda í eyðu. Ég veiti fyrstu hjálp ef slys eða óhöpp ber að höndum, sé um allan þvott og er kennurum innan handar og svo er margt fleira sem fellur til, hér er alltaf nóg að gera,“ segir Gróa og brosir.

Það þarf oft að líma plástra á sálir
„Ríkidæmið í þessu öllu saman er að fá tækifæri til að starfa með dýrmætu unglingunum okkar, fylgjast með þeim vaxa og dafna og takast á við lífið.
Börn vilja reglur og mörk en fyrst og fremst ást og umhyggju. Það þarf oft að líma plástra á sálir og sár og sárast af öllu er þegar einhver villist af leið og fetar ranga braut. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp börn, það er nú bara þannig,“ segir Gróa að lokum er við kveðjumst.