Blikastaðaland 1. áfangi
Nú hefur tillaga á vinnslustigi á deiliskipulagi 1. áfanga Blikastaðalands verið lögð fram til kynningar og hægt er að gera athugasemdir við hana til 10. febrúar nk.
Áætlað er að uppbygging á Blikastaðalandi, hverfinu milli fells og fjöru, muni taka 20-25 ár í þremur til fimm áföngum. Áhersla er lögð á að tengja og aðlaga byggðina að hverfinu og aðliggjandi náttúru í góðu samráði við íbúa.
Hér er um nýtt hverfi að ræða sem er mikilvægur þáttur í húsnæðisuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og tekur það tillit til samfélagsgerðar og þarfa íbúa til framtíðar. Áhersla er lögð á áberandi græn svæði og samspil og aðgengi að þeirri náttúru sem landið hefur upp á að bjóða.
Kostir svæðisins
Umræðan um uppbyggingu á landinu er áratugagömul. Vinna við skipulagið sjálft hefur verið í gangi um langa hríð og tekur meðal annars mið af samkomulagi og samstarfi Mosfellsbæjar í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og þátttöku í samgöngusáttmálanum.
Mikil og fagleg vinna er lögð í gerð skipulagsins þar sem áhersla er lögð á að íbúar hafi góðan aðgang að aðliggjandi náttúru og útivistarsvæðum og fjölbreytta möguleika til útivistar.
Íbúðagerðir
Í 1. áfanga svæðisins mun byggjast upp fjölbreytt byggð með mismunandi tegundum íbúða, sem henta fjölbreyttum hópi fólks, bæði einstaklingum og fjölskyldum. Fjölbýli verða í meirihluta í þessum fyrsta áfanga hverfisins en þar er átt við blöndu af 2-4 hæða húsum, smærri fjölbýlum og svo sérbýlum. Mesti þéttleiki hverfisins verður í þessum fyrsta áfanga svæðisins svo að hægt sé að byggja upp nauðsynlega innviði samhliða.
Hverfið verður „BREEAM“ vottað þar sem leitast er við að hlúa að samfélaginu með samfélagslegri ábyrgð, sjálfbærni og kolefnishlutleysi. Mikil áhersla er lögð á hönnun og legu lóða og húsa með tilliti til birtu og legu í landinu.
Byggðin í 1. áfanga hverfisins byggist upp í kringum gamla Blikastaðabæinn sem verður endurgerður. Þar verður miðbær hverfisins með verslun og þjónustu sem skapar svo einnig mannlíf og menningu. Í þessum áfanga verður einnig reistur skóli og leikskóli.
Tillögurnar um staðsetningu skólans falla afar vel að umhverfinu, þar sem þær taka mið af náttúrunni í kring. Skólalóðin mun snúa í suður þar sem hluti hennar eru opin græn svæði.
Samgöngur og umferð
Hluti af samkomulagi við landeigendur er að góðar almenningssamgöngur liggi í gegnum Blikastaðaland í miðbæ Mosfellsbæjar og þaðan til Reykjavíkur. Almenningssamgöngur sem ættu að nýtast öllum Mosfellingum vel.
Fjölbreyttar samgöngur og blönduð byggð á svæðinu eru m.a. til þess fallnar að takmarka þörf á bílaumferð innan hverfisins þar sem þjónusta og atvinnustarfsemi verður í göngufæri.
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn telja þó að bílastæði á svæðinu séu of fá samkvæmt fyrirliggjandi vinnslutillögu og leggja áherslu á að þeim verði fjölgað. Auk þess munum við leggja áherslu á að samið verði um tengingu úr hverfinu suður að Korpúlfsstaðavegi, samhliða uppbyggingu þessa fyrsta áfanga, til að tryggja gott umferðarflæði til og frá hverfinu.
Langtímaverkefni
Uppbygging á Blikastaðalandinu er langtímaverkefni. Um er að ræða nýtt hverfi sem er að mörgu leyti ólíkt öðrum hverfum Mosfellsbæjar – hverfi sem tekur mið af breyttum samfélagslegum þörfum og kröfum næstu kynslóða.
Þegar horft er til uppbyggingarinnar er einmitt mikilvægt að átta sig á að hún mun eiga sér stað á næstu 20 -25 árum og því nauðsynlegt að hún taki mið af þörfum þess fólks sem hér vill búa í framtíðinni. Við uppbyggingu á þessu stóra verkefni sem mun ná yfir langan tíma er mikilvægt að upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir séu réttar og byggðar á staðreyndum. Lögð hefur verið áhersla á af hálfu stjórnsýslunnar hjá Mosfellsbæ að veita góðar upplýsingar um skipulagið og uppbygginguna til íbúa bæjarins, upplýsingar um þéttleika byggðar, húsagerðir, áfangaskiptingar og ekki síst um umferðarmál.
Við hvetjum bæjarbúa að kynna sér deiliskipulagstillöguna á mos.is, blikastadaland.is og í Skipulagsgátt, mál nr. 1010/2023.
Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir
Bæjarfulltrúar D-lista