Blikastaðabærinn – hvað verður um hann?
Uppbygging á svæðinu kallar á yfirvegaða umræðu og virðingu fyrir þeirri starfsemi sem þar fer nú fram.
Nú liggur fyrir gríðarleg uppbygging á Blikastöðum sem mun móta samfélag okkar til framtíðar. Slíkar framkvæmdir kalla á yfirvegaða umræðu og gagnrýna hugsun, því sporin hræða. Í gegnum tíðina hafa skipulagsákvarðanir verið teknar sem hafa haft óafturkræf áhrif á bæjarmyndina. Við hljótum að spyrja: Var rétt ákvörðun á sínum tíma að byggja Kjarnann í þeirri mynd sem hann er í dag? Er blokkaklasinn í Þverholti miðbær Mosfellsbæjar? Og verða Blikastaðir hinn nýi miðbær?
Menningarstarf sem skiptir máli
Á gamla Blikastaðabænum fer nú fram merkileg og lífleg menningarstarfsemi. Þar hefur Fornvélafélagið & Ferguson-félagið haft aðstöðu í tólf ár. Félagið, sem telur um 330 félagsmenn, er áhugamannafélag um dráttarvélar og sögu landbúnaðarins. Starfsemin byggir á eldmóði og áhuga, og félagið rekur sig alfarið sjálft – án nokkurra opinberra styrkja.
Félagið sér um húsnæðið og umhverfi þess og heldur reglulega fundi með tugum þátttakenda, en hefur því miður enga fasta fundaraðstöðu og þarf því að leigja sal út í bæ fyrir hvern fund. Árlega stendur félagið fyrir opnum degi í maí þar sem starfsemin er kynnt og gestum gefst tækifæri til að skoða vélarnar og þiggja veitingar í boði félagsins og hafa þeir einnig verið virkir þátttakendur í „Í túninu heima“.
Margir félagsmenn eru eldri borgarar og er því mikil umferð af fólki á hverjum degi og mikið spáð, spjallað og spekúlerað og má því í raun segja að þetta sé félagsmiðstöð.
Byggjum á því sem er
Ég sé fyrir mér að á Blikastöðum verði til menningarsetur sem endurspeglar sögu bæjarins og þeirri öflugu starfsemi sem þar hefur verið og er enn í formi menningarstarfs. Þar væri kjörið að hýsa einnig annað menningarlegt og sögulegt efni, til dæmis hernámsafn Tryggva Blumenstein, veita Sögufélaginu aðstöðu og jafnvel færa starfsemi Héraðsskjalasafnsins þangað. Við gætum haft notalegt kaffihús og rými fyrir listamenn til að koma fram og sýna verk sín. Það er fullt tilefni til að ræða möguleikana á nýtingu gamla bæjarins með aðkomu bæjarbúa sem áhuga hafa á málefninu.
Það þarf ekki að finna upp hjólið – við eigum þegar frábæran grunn að menningarstarfsemi sem við ættum að vera stolt af. Byggjum ofan á það sem þegar hefur rætur, og styðjum það sem er að blómstra í bænum okkar.
Hagsmunir í ójafnvægi?
Það sem vekur áhyggjur er sú staðreynd að bankinn á bæði Blikastaði og landið þar í kring, og hefur ráðið talsmann til að kynna sínar hugmyndir og hafa áhrif á umræðuna. Bankinn hefur augljósa fjárhagslega hagsmuni af uppbyggingunni – enda snýst bankastarfsemi um að hámarka verðmæti fjárfestinga.
Mosfellsbær fer hins vegar með skipulagsvaldið. Þannig eru tveir aðilar með ólíka hagsmuni að stýra þessu verkefni. Fyrir mér minnir þetta svolítið á Davíð og Golíat. Þess vegna verðum við, kjörnir fulltrúar bæjarins, að standa í lappirnar, staldra við og tryggja að uppbyggingin sem framundan er sé í sátt við samfélagið og í samræmi við gildi bæjarins okkar.
Við eigum ekki að sætta okkur við uppbyggingu sem þóknast fyrst og fremst fjármagninu. Við eigum að krefjast þess að það sem byggt verður á Blikastöðum nýtist fólkinu í bænum – okkur öllum – og virði söguna, menninguna og samfélagið sem þar er nú þegar lifandi.
Munum það að saga Mosfellsbæjar er sérstök á landsvísu og er fullt tilefni til að koma henni á framfæri fyrir alla landsmenn sem og erlenda gesti.
Kristján Erling Jónsson
Vinur Mosfellsbæjar