Bjarnarganga á Stöðvarfirði
Við vorum á Kirkjubæjarklaustri um helgina, ég, frúin og sá yngsti ásamt góðum vinum okkar. Þetta var ótrúlega notaleg helgi. Góð samvera, leikir, spil, útivera og magnað umhverfi. Ég fór eftir helgina að pæla í því hvernig jákvæðar tengingar ég hefði við hina ýmsustu staði landsins. Rúllaði í gegnum þann leik með sjálfum mér að velja stað af handahófi og rifja upp jákvæða og heilbrigða minningu þaðan. Án þess að ofhugsa eða velja staði sem enginn hefur komið til.
Hér eru nokkur sýnishorn: Ísafjörður – fjölskylduganga upp í Naustahvilft; Akureyri – ganga frá flugvellinum inn í bæ, beint á Bláu könnuna í spínatböku og kaffi; Hafravatn – fá að prófa uppblásið SUP bretti hjá ókunnugum; Hornafjörður – útiæfing með góðu fólki við apastigann fyrir neðan Hótel Höfn; Vestamannaeyjar – ganga upp á Heimaklett; Hvalfjörður – sjósund við ryðgaða bryggju; Bifröst – spretthlaup upp Grábrók; Esjan – rösk ganga að Steini, hlaup niður „hinum“ megin; ónefnd gil og gljúfur – ævintýraferðir með ævintýrafólki; Hengilssvæðið – heimagerður heitur pottur með æskufélögum; Búðardalur – fótboltaleikir á battavellinum í stoppi á leiðinni á Strandir; Stöðvarfjörður – bjarnarganga hjá „Gangið ekki á grasinu“ skilti; Sauðárkrókur – körfuboltakeppnisferðir; Djúpavík – kaffi í fjöruborðinu. Þetta eru bara nokkur dæmi, ég hefði getað haldið lengi áfram. Ég komst að því að ég get tengt einhverja jákvæða upplifun við alla, leyfi ég mér að fullyrða, staði sem ég hef komið á. Bæði á Íslandi og erlendis.
Það sem svona æfingar/leikir gera fyrir mann er að fylla mann þakklæti. Þakklæti fyrir allar þessar góðu minningar. Að hafa fengið og tekið þátt í að búa þær til. Njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Við bjuggum til nýjar svona minningar á Klaustri um síðustu helgi. Þær fara í minningabankann með hinum. Og ég á eftir að búa til margar nýjar með mínu fólki í ár og komandi ár. Njótum ferðalagsins!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. júní 2020