Besta platan

Heilsa er ekki bara að sofa, borða og hreyfa sig. Heilsa snýst um miklu meira. Viðhorf til lífsins til dæmis. Það er hægt að skrolla sig í gegnum lífið með neikvæð gleraugu á nefinu og finna öllu og öllum allt til forráttu. En það er líka hægt að fara hina leiðina, einbeita sér að því að gera hluti sem maður hefur gaman af. Þríeykið sem heldur úti hlaðvarpinu „Besta platan“ er í seinni flokknum.

Þeir Skálmaldarbræður Baldur og Snæbjörn og félagi þeirra, doktorinn Arnar Eggert, ræða saman í þessum hlaðvarpsþáttum um hljómsveit eða listamann og fara aðallega yfir þá plötu sem Snæbjörn leggur upp með að sé besta plata viðkomandi. Ég hef mikið verið að hlusta á þessi þætti undanfarið – yfirleitt þegar ég er að iðnaðarmannast eitthvað heima hjá mér. Vinnan flýgur áfram undir spjalli og stundum söng þessara herramanna. Það skín sterkt í gegn hvað þeir hafa gaman af því sem þeir eru að gera og að vera saman.

Það er sömuleiðis greinilegt að þeir tækla hvert viðfangsefni af virðingu og heiðarleika. Og gera oft grín að sjálfum sér fyrir að hafa þegar þeir voru yngri verið fullir af fordómum og fyrir að hafa „haldið með“ ákveðinni hljómsveit og litið niður á aðra af því að umhverfið sem þeir voru í nánast krafðist þess. Allir hafa þroskast upp úr því og eru óhræddir að viðurkenna hvað þeim þykir gott og skemmtilegt, sama hvaðan það kemur og hvað það heitir.

Það er ótrúlega heilsueflandi þegar covidið heldur áfram að stríða okkur, jörð skelfur eða logar og íslensku landsliðin okkar í fótbolta tapa öllu sem þau komast í, að slökkva á fréttum, útvarpi og umhverfinu eiginlega og velja sér í staðinn skemmtilegan þátt í „Bestu plötunni“. Við höfum alltaf val, við getum valið skemmtilegu leiðina í lífinu. Ég mæli með henni!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. apríl 2021