Bætum almenningssamgöngur! En ekki núna …
Það hljómar kannski ankannalega en stefnan meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar virðist einmitt vera þessi.
Meirihlutinn samþykkti í haust uppfærslu á samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið. Að mati okkar í Vinum Mosfellsbæjar felur uppfærslan í sér óljósan ávinning fyrir íbúa bæjarins þegar horft er til næstu ára eða áratugar, en á sama tíma allveruleg fjárframlög til verkefnisins.
Þessi sami meirihluti felldi nú á dögum tillögur okkar Vina Mosfellsbæjar í tengslum við gerð fjárhagsásætlun bæjarins 2025 til 2028, sem miðuðu að því að Mosfellsbær tæki forystu í að efla almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost. Strax.
Breytingar á rótgrónum venjum og hugarfari taka langan tíma og því ekki til neins að bíða ef tryggja á að þær gríðarlegu fjárfestingar sem Borgarlínan kallar á skili fullum ávinningi þegar þeim lýkur. Liður í því er að byrja án tafar að ala upp nýja kynslóð samgöngunotenda sem lítur á almenningssamgöngur sem eðlilegan hlut af tilverunni en ekki sem eitthvað fyrir þá sem ekki hafa aldur til eða efni á að nota einkabílinn.
Innanbæjarstrætó er hugtak sem margoft hefur skotið upp kollinum í umræðu um samgöngur hér í bæ, hvort sem er á samfélagsmiðlum, á opnum íbúafundum, í ungmennaráði – eða jafnvel í tengslum við endurskoðun umhverfis- og loftlagsstefnu Mosfellsbæjar. Innanbæjarstrætó sem tengdi betur hverfi bæjarins, nýttist yngri vegfarendum til að komast til og frá skóla, æfingum og frístundum – og drægi þá úr þessu endalausa skutli sem einkennir bæinn okkar í dag.
Hægt væri jafnvel að hafa slíkan strætó frían fyrir grunnskólanemendur, til ýta enn frekar undir notkun.
Þessi innanbæjarstrætó myndi jafnframt fæða hraðari strætó farþegum sem halda áfram út fyrir bæjarmörkin. En það er jú ljóst að lítill tilgangur væri fyrir innanbæjarstrætó að dóla sér um hálfan Mosfellsbæ á eftir vagni númer 15. Þess í stað væri hægt að breyta leið númer 15, sem tryggir skjótari tengingu við Reykjavík og önnur svæði með því að aka stystu leiðina um Vesturlandsveg.
Tillögurnar okkar snerust um þetta. Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar greiddu atkvæði gegn þeim. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Öll viljum við jú hreyfa okkur meira, borða hollara mat, efla almenningssamgöngur … en bara seinna, ekki núna …
Michele Rebora
Fulltrúi Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd