Bættu við bílaleigu til að auka þjónustu
Fjölskyldufyrirtækið Réttingaverkstæði Jóns B, sem staðsett er í Flugumýri 2, er með meira en 30 ára reynslu í bíla- og tjónaviðgerðum.
„Pabbi stofnaði þetta verkstæði árið 1978 í bílskúr í Bjargartanganum þar sem við bjuggum og þar byrjaði ég að vinna með honum. Árið 1983 keyptum við grunn hérna í Flugumýrinni og reistum þetta hús og höfum alla daga síðan verið hér og tvisvar byggt við húsnæðið,“ segir Gunnlaugur Jónsson sem er eigandi verkstæðisins í dag.
Bættu við bílaleigu
„Við erum fimm stjörnu, gæðavottað bílgreinasambands verkstæði og með samning við öll tryggingafélögin. Við erum rótgróið fyrirtæki hér í Mosfellsbæ og þjónustum mörg fyrirtæki hér í bæ og Mosfellinga.
Við erum mest í svokölluðum tryggingatjónum en leggjum okkur fram um að leysa öll verkefni sem koma til okkar. Einn þáttur í því að auka þjónustustigið við okkar viðskiptavini er bílaleiga sem við höfum nýverið stofnað.
Það er til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar að geta fengið bílaleigubíl hjá okkur á meðan við gerum við bílinn þeirra. En við finnum líka fyrir aukinni eftirspurn eftir bílum hjá ferðamönnum sem eru hér í bænum.“
Reynum að leysa öll mál varðandi bíla
Þrátt fyrir að Gulli og hans starfsmenn sérhæfi sig í réttingum og málun á bílum þá veita þeir þjónustu á fleiri sviðum.
„Við erum með bilanagreiningatölvu sem er í raun sú flottasta sem er á markaðnum í dag og gerum mikið af því að bilanagreina bæði nýja og gamla bíla. Við sérhæfum okkur til að mynda í viðgerðum á loftkælingum í bílum og rafmagnsbílum.
Þetta er í rauninni enn einn þátturinn í því að geta leyst sem flest vandamál sem viðkoma bílum og þjónusta okkar viðskiptavini á sem bestan hátt,“ segir Gulli að lokum.