Bærinn fyllist af blökurum

Undirlag sett í blakhöllina í Fellinu en þar verður leikið á sex völlum.

Mosöld 2024 er Öldungamót Blaksambands Íslands og líklega stærsta mót fyrir fullorðna ár hvert á Íslandi. Mosöld fer fram í Mosfellsbæ og hefst í dag 9. maí og stendur til 11. maí.
Blakdeild Aftureldingar hefur veg og vanda af mótinu og eru yfir 150 lið skráð en til að vera gjaldgengur þá þarf að vera 30 ára á árinu eða eldri. Spilaðir verða 453 leikir í 15 kvennadeildum og 7 í karladeildum frá fimmtudegi til laugardags.
Um 1.200 keppendur verða á Varmársvæðinu og í Mosfellsbæ keppnisdagana. Blakhátíðinni lýkur svo með glæsilegu lokahófi að Varmá á laugardagskvöldið.

Mikil stemning á Varmársvæðinu
Auk keppni í Íslandsmóti Öldunga fara fram tveir landsleikir sem eru styrktarleikir fyrir A-landslið Íslands í blaki sem eru að fara í dýrt verkefni í maí og júní þegar bæði liðin taka þátt í Silver league keppninni.
Á fimmtudaginn kl. 20 mun karlalandslið Íslands keppa við All-star lið erlendra leikmanna sem eru leikmenn sem spila með íslenskum liðum og á föstudaginn kl. 20 mun íslenska kvennalandsliðið spila við landslið Færeyja.
Barna- og unglingaráð stendur fyrir glæsilegri veitingasölu í fimleikasalnum að Varmá og knatthúsið verður gert að blakhöll með sex völlum ásamt markaði þar sem fyrirtæki munu kynna og selja vörur.
Mosfellingar eru hvattir til að kíkja á Varmársvæðið og upplifa þessa víðfrægu stemmingu sem fylgir Öldungamótunum.
Blakdeildin er mjög þakklát stuðningsaðilum sínum á þessu risamóti og hafa vellirnir 15, sem spilað er á, hlotið nöfn þeirra fyrirtækja sem styrkja mótið.