Bæjarhátíð í 20 ár
Bæjarhátíðin Í túninu heima verður sett fimmtudaginn 28. ágúst næstkomandi og fagnar 20 ára afmæli í ár.
Í tilefni afmælisins var nýtt merki hátíðarinnar kynnt sem auglýsingastofan ENNEMM á heiðurinn af.
Bæjarhátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2005 en það var þáverandi garðyrkjustjóri bæjarins, Oddgeir Þór Árnason, sem vann að undirbúningnum og átti frumkvæði að nafninu Í túninu heima. Eins og flestir vita vísar nafnið í bók nóbelskáldsins og Mosfellingsins Halldórs Kiljan Laxness. Í framhaldinu verkstýrði Daði Þór Einarsson stjórnandi skólahljómsveitar Mosfellsbæjar hátíðinni þar til Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings og viðburðastjóri Hlégarðs tók við því hlutverki og hefur sinnt því undanfarin ár ásamt Auði Halldórsdóttur forstöðumanni bókasafns og menningarmála.
Fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ er svona hátíð afar þýðingarmikil. Hún skapar umgjörð fyrir okkur til að draga fram allt það góða sem við eigum í okkar menningarlífi, íþrótta- og félagsstarfi. Hátíðin hefur alla tíð verið þátttökuhátíð þar sem bæjarbúar bjóða til dæmis upp á tónleika í heimagörðum, skipuleggja götugrill og skreyta í hverfalitum. Þannig hvetur bæjarhátíðin til samstarfs, samtals og samveru fjölskyldna, vina og nágranna. Við erum líka stoltir gestgjafar og viðburðir eins og grænmetismarkaðurinn og Tindahlaupið hafa verið gríðarlega vinsælir. Í fyrra var haldið sérstakt hundahlaup í fyrsta sinn sem sló í gegn.
Í ár verða fjölmargir viðburðir eins og undanfarin ár og það er gaman að sjá hversu margir listamenn bjóða heim en við erum með tónleika og listsýningar á 15 heimilum og vinnustofum í bænum. Mig langar að þakka þessu góða fólki sérstaklega fyrir gestrisnina.
Stórtónleikar á torginu á laugardagskvöldinu hafa verið fyrir marga hápunktur hátíðarinnar. Mosfellsbær hefur alla tíð staðið fyrir tónleikunum undir formerkinu fjölskyldutónleikar. Á undanförnum árum hefur fjöldi unglinga af öllu höfuðborgarsvæðinu sótt þessa tónleika, án þess að vera í fylgd með foreldrum.
Fjöldinn og áfengisneyslan hefur stigmagnast og náði hámarki á tónleikunum 2024. Viðbragðsaðilar í Mosfellsbæ voru mjög vel undirbúnir og okkar góða starfsfólk í Bólinu, Flotanum sem er færanleg félagsmiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið, barnavernd, björgunarsveitin og lögreglan stóðu öll vaktina. Þá var keypt þjónusta frá sérstöku öryggisfyrirtæki og sérsveitin var einnig til taks. Neyslan var óhófleg, mikil spenna og slagsmál og það hafa aldrei fleiri ungmenni verið færð í athvarf á þessum tónleikum eins og í fyrra.
Það var ljóst að einhverju þurfti að breyta í ár til að brjóta upp þetta mynstur. Nærtækast var að færa tónleikana fyrr um kvöldið en það skarast hins vegar á við götugrillin. Þess vegna var ákveðið að ljúka hátíðinni í ár með fjölskyldutónleikum á sunnudagseftirmiðdeginum þar sem flottir tónlistarmenn koma fram.
Brekkusöngurinn verður á sínum stað og á laugardagskvöldinu munum við fá tónlistarmenn til að skemmta í fjölmennustu götugrillunum. Þá verður sundlaugarbíó fyrir unglingana í Lágafellslaug og Pallaballið verður í Hlégarði og hefst fyrr en undanfarin ár.
Við munum svo ljúka kvöldinu með ljósasýningu á Helgafelli.
Fyrir hönd bæjaryfirvalda vil ég færa öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi hátíðarinnar í ár okkar bestu þakkir. Þá vil ég þakka fyrirtækjum í Mosfellsbæ fyrir stuðninginn.
Ég vona að sem flestir Mosfellingar finni eitthvað við sitt hæfi á bæjarhátíðinni Í túninu heima 2025 og að veðurguðirnir verði með okkur í liði!
Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar