Ávallt með mörg járn í eldinum
Veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn er vinsæll og sívaxandi veitingastaður í hjarta Mosfellsbæjar en hann var stofnaður árið 2011. Á Hvíta, eins og oft er sagt manna á milli, er boðið upp á fjölbreyttan matseðil og skemmtilegt umhverfi ásamt barnahorni.
Ungi athafnamaðurinn Hákon Örn Bergmann er eigandi staðarins og hefur hann gert ýmsar breytingar frá því hann tók við árið 2014. Hann segir mikla þörf fyrir svona stað í Mosfellsbæ þar sem fólk geti hist við alls kyns tilefni og notið góðra veitinga.
Hákon Örn er fæddur í Reykjavík 4. nóvember 1993. Foreldrar hans eru þau Edda Herbertsdóttir tölvunarfræðingur og Hilmar Bergmann viðskiptafræðingur. Systkini hans eru þau Hildur fædd 1979, Hilmar Þór fæddur 1989, Helgi Björn fæddur 1991 og Hafþór Ingi fæddur 1995.
Gaman að leika í Leynigarði
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og þegar ég lít til baka til æskuáranna þá koma upp í hugann margar góðar minningar. Það var til dæmis alltaf gaman að vera í kringum vinkonur mömmu. Ein þeirra, Gulla, byggði sér hús rétt hjá Dælustöðinni sem fékk nafnið Leynigarður. Þar eyddum við Hafþór bróðir mörgum góðum stundum.
Eins get ég nefnt allar góðu stundirnar sem ég átti með skólafélögum mínum. Ég var átta ár í Lágafellsskóla en færði mig svo yfir í Gaggó Mos. Það gerði ég einfaldlega út af því að flestir af bestu vinum mínum voru í þeim skóla.“
Skólakerfið hálf gallað
„Mér fannst alltaf gaman í skólanum og þurfti ekki mikið að hafa fyrir náminu. Kennararnir voru auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir en Elli eðlisfræðikennarinn minn var í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er skemmtilegur karakter, hreinskilinn og sanngjarn.
Mér hefur alltaf fundist skólakerfið hérna á Íslandi vera hálf gallað, þá er ég að tala um námsgreinar í skyldunámi. Það voru þarna áfangar sem ég hafði engan áhuga á og taldi ekki vera nauðsynlega fyrir mig og framtíð mína. Það hafði vissulega áhrif á endasprettinn á grunnskólagöngu minni en samt ekki svo að ég komst inn í Verzlunarskóla Íslands haustið eftir.“
Tók mikinn þátt í félagslífinu
„Ég byrja í Verzló haustið 2009 og allt gekk eins og í sögu. Ég kynntist frábæru fólki, námið gekk vel og ég tók mikinn þátt í félagslífinu. Það var algjört prinsipp hjá mér að fara í Versló, mér fannst það alltaf heillandi skóli. Hilmar, elsti bróðir minn, fór í Verzló og var alltaf mikil fyrirmynd. Hann útskrifaðist vorið áður en ég byrjaði þannig að við náðum ekki að vera þarna á sama tíma, því miður.
Á öðru ári í skólanum byrjaði lífið aðeins að flækjast. Ég vann allt of mikið með náminu sem hafði áhrif. Ég er bara þannig gerður að ég verð að hafa mörg járn í eldinum og er í raun vinnualki. Ég get sagt þér að þegar ég var 11 ára fór ég að bera út blöð. Ég var varla byrjaður þegar ég bætti við mig hverfum og fjölmiðlum. Ég hefði aldrei ráðið við þetta ef mamma hefði ekki hjálpað mér. Það var hún sem dröslaði mér á fætur. Frá þessum tíma hef ég bara ekki slakað á.“
Var að flýta mér að hefja lífið
Samhliða náminu í Verzló bætti Hákon við sig námi í Flugskóla Íslands. Hann segist hafa verið að flýta sér að hefja lífið en hafi síðan áttað sig á að þetta var of mikið í einu. „Ég leyfði mér í rauninni aldrei að njóta menntaskólaáranna sem eru svo dýrmæt. Ég kláraði þó tvö ár í Verzló og hætti í Flugskólanum.
Á þessum tímapunkti fór ég í mína stærstu niðursveiflu. Ég lokaði mig inni í tvo mánuði, sem betur fer ekki lengur, en þarna lauk námsferli mínum, alla vega í bili.“
Reynslan hefur kennt mér mikið
„Næstu árin vann ég á hinum ýmsu vinnustöðum, lengst af í Krónunni eða í átta ár með hléum. Ég byrjaði þar daginn fyrir fermingardaginn minn og sinnti ýmsu á þessum árum. Ég á í raun yfirmönnum í Krónunni mínum mikið að þakka því þarna lærði ég að vinna og reynsla mín hefur hjálpað mér mikið með flest allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur.
Ég byrjaði svo að vinna á Dönsku kránni og þar kynntist ég barbransanum en áður hafði ég unnið á nokkrum veitingastöðum. Þar kynntist ég kærustunni minni, Ölbu Rós Jónínudóttur, en hún tók þátt í að ráða mig til starfa. Það leið ekki langur tími þangað til við fórum að búa saman ásamt Alexöndru, dóttur hennar.“
Símtalið sem breytti öllu
„Vorið 2014 fékk ég símtal frá Geir vini mínum. Hann spurði hvort mig vantaði ekki vinnu því hann hafði frétt að það vantaði pítsubakara á Hvíta Riddarann. Ég sló til og sé ekki eftir því.
Í desember sama ár kom í ljós að það vantaði nýjan rekstraraðila fyrir staðinn. Ég og Agnar vinur minn slógum til en stuttu seinna kom í ljós að Agnar gat ekki tekið þetta að sér sökum verkefna. Ári seinna tók ég við sem eigandi. Ég hafði enga reynslu af að reka veitingastað en ákvað að hoppa út í djúpu laugina.“
Búin að gera miklar breytingar
„Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær sem þarf á góðum veitingastað að halda sem og stað sem fólk hittist á við alls kyns tilefni. Það hefur aukist mikið að fjölskyldufólk sæki staðinn og erum við bæði með barnamatseðil og sérstakt barnahorn. Ég er mjög þakklátur bæjarbúum fyrir viðtökurnar.
Við erum með heimilismat í hádeginu á virkum dögum og hlaðborð á föstudögum. Hér fara líka fram hinir ýmsu viðburðir. Það er alltaf stemning hjá okkur í kringum boltaíþróttirnar og hér er góð aðstaða til að horfa á leiki. Við reynum líka að styðja vel við íþróttastarfið í bænum.
Ég hef fengið mikla hjálp frá mínum nánustu við uppbyggingu á staðnum og þá sérstaklega frá tengdamóður minni Jónínu og auðvitað hefur Alba Rós staðið með mér í gegnum þetta allt saman eins og klettur.“
Fullir vasar
„Í sumar stofnaði ég kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Aktive Productions. Í framleiðslu núna er kvikmyndin Fullir vasar sem kemur í kvikmyndahús í febrúar 2018. Myndin fjallar um fjóra menn sem ræna banka til að eiga fyrir tugmilljóna skuld eins þeirra við hættulegasta mann Íslands og þá fer af stað ótrúleg atburðarás sem enginn sá fyrir.
Það eru fleiri verkefni á prjónunum fyrir næstu ár svo það má segja að framtíðin bíði bara björt,“ segir Hákon brosandi að lokum.
Mosfellingurinn 9. nóvember 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs