Aukið umferðaröryggi í Kjósinni
Kjósarhreppur er nú að hefja vinnu við gerð umferðaröryggisáætlunar sem miðar að því að auka vitund um umferðaröryggismál meðal forráðamanna sveitarfélagsins og íbúa. Í því felst að greina stöðuna, finna slysastaði, gera úrbætur, setja sér markmið og gera aðgerðaáætlun.
Mörg sveitarfélög í landinu hafa gert slíka áætlun eftir leiðbeiningum Samgöngustofu. Kristjana Erna Pálsdóttir hjá VSÓ Ráðgjöf leiðir verkefnið ásamt Regínu Hansen Guðbjörnsdóttur hreppsnefndarfulltrúa og formanns samgöngu– og fjarskiptanefndar í Kjós. Hagsmunaaðilar í Kjós koma einnig að verkefninu eins og fulltrúi hestamanna, fulltrúi íbúa, björgunarsveitarinnar og bílstjóri skólabílsins.
Skipaður vinnuhópur og íbúafundur
Skipaður hefur verið vinnuhópur en hann skipa Guðmundur Davíðsson, varaformaður samgöngu- og fjarskiptanefndar, Hermann Ingólfsson, skólabílstjóri og eigandi Kaffi Kjós, Guðmundur Páll Jakobsson, ritari samgöngu- og fjarskiptanefndar, Adam Finnsson, Björgunarsveitinni Kili, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í öryggis– og fræðsludeild Samgöngustofu, Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá umferðardeild Vegagerðarinnar og Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Íbúafundur 9. febrúar
Íbúafundur verður haldinn laugardaginn 9. febrúar kl.12 í Félagsgarði en þar fá íbúar tækifæri til að koma með frekari ábendingar og ávinning verkefnisins. Allir íbúar eru hvattir til að mæta.