Apótek MOS opnar í Háholti

apotekmos

Þór Sigþórsson lyfsali hefur opnað nýtt apótek í Mosfellsbæ. Apótek MOS er einkarekið og staðsett í Krónuhúsinu í Háholtinu. Apótekið er í björtu og rúmgóðu húsnæði og allt hið glæsilegasta með fjölbreytt vöruúrval. „Hér er kominn mjög öflugur verslunarkjarni og mér fannst því vænlegt að láta slag standa,“ segir Þór sem opnaði dyrnar fyrir viðskiptavinum 29. júlí sl.
„Við höfum fengið mjög góðar móttökur og fólk er greinilega ánægt með þessa viðbót við heilbrigðisþjónustu í bæjarfélaginu. Við erum búin að koma okkur vel fyrir og erum að kynna starfsemina.“
„Mosfellsbær er ört vaxandi sveitarfélag og fer íbúafjöldi brátt yfir 10.000. Almennt eru 4.500 – 5.000 manns á bakvið hvert apótek í öðrum sveitarfélögum og því ætti að vera góður rekstrargrundvöllur fyrir tvö apótek hér í Mosfellsbæ. Eitt af megin­markmiðum okkar er að vera vel samkeppnishæf í verði og þjónustu.“

Nína Hildur Oddsdóttir, Bryndís Birgisdóttir, Þór Sigþórsson og Salvör Þórsdóttir.

Nína Hildur Oddsdóttir, Bryndís Birgisdóttir, Þór Sigþórsson og Salvör Þórsdóttir.

Nýjungar á Íslandi
Þór er ekki allsókunnugur Mosfellsbæ en hann bjó hér um árabil áður en hann fluttist til Noregs og dætur hans báðar búa hér í dag. „Ég hef því miklar taugar til Mosfellsbæjar og finnst gott að vera kominn af stað hér með eigin rekstur.“
„Ég var lyfsöluleyfishafi í þrjú ár í Bergen í Noregi og vann þar fyrir stærstu apótekakeðju Noregs, sem í dag rekur 330 apótek. Í Noregi kynntist ég skandinavíska módelinu sem grundvallast á því að aðgreina afgreiðslu lyfseðilskyldra lyfja frá annarri afgreiðslu, þar með talið lausasölulyfja.”
„Þannig er skipulagið í Apótek MOS frábrugðið öðrum íslenskum apótekum. Við höfum tvær afgreiðslustöðvar fyrir lyfseðla, þar sem við lyfjafræðingarnir afgreiðum viðskiptavininn beint frá móttöku lyfseðils til afhendingar lyfja og síðan er afgreiðslukassi við útgang apóteksins fyrir aðra afgreiðslu. Með þessu leitumst við við að tryggja friðhelgi viðskiptavinarins, þannig að þeir sem koma til að kaupa lausasölulyf eða aðra vöru eftir atvikum eru ekki afgreiddir við hlið hinna sem eru að sækja lyf samkvæmt lyfseðli. Með þessu fyrirkomulagi verja lyfjafræðingar yfir 90% af starfstíma sínum með viðskiptavinum.”
Við munum leggja okkur fram við að veita persónulega og góða þjónustu og með mér í liði er einungis fagmenntað fólk.

Lengri opnunartími
Þór hefur staðið í fyrirtækjarekstri mest alla tíð. Hann starfaði sem yfirlyfjafræðingur í Laugavegsapóteki um nokkurra ára skeið. Þá gerðist hann forstjóri Lyfjaverslunar ríkisins, síðar Lyfjaverslunar Íslands, og stofnaði síðar sitt eigið fyrirtæki á sviði klínískra lyfjarannsókna áður en hann hélt til Noregs.
„Apótek Mos býður upp á lengri opnunartími en áður hefur tíðkast hér í bæ. Virka daga er opið 09:00-18:30 og um helgar 10:00-16:00. Við stefnum að því að vera vel samkeppnishæf í verðlagningu og þjónustu og tökum vel á móti Mosfellingum,“ segir Þór að lokum. Boðið er upp á ýmis opnunartilboð þessa dagana auk þess sem bæjarbúar fá fría heimsendingarþjónustu.