„Andrúmsloftið er alveg einstakt þegar Mosó mætir“
Afturelding stóð fyrir hópferð á KALEO-tónleika í Lissabon í Portúgal í byrjun nóvember. Hátt í 200 Mosfellingar voru með í för og var mikil stemning í hópnum enda Afturelding nýbúin að tryggja sér sæti í Bestu deild og var bikarinn með í för.
„Það er oftast mikil stemning á tónleikum hjá okkur en það er óhætt að segja að andrúmsloftið sé einstakt í þau skipti sem hópurinn úr Mosó mætir,“ segir Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar KALEO.
Áður hafði verið farið í ferð til Dublin árið 2022. „Þetta er smá eins og þegar íslenskt landslið fer á stórmót og fólk mætir erlendis til að styðja. Það er virkilega einstakt fyrir Mosfellsbæ og ég elska að fá að vera hluti af því,“ segir Jökull.
Sameinar samfélagið í Mosó
Fyrir þremur árum gerðist KALEO styrktaraðili knattspyrnudeildar Aftureldingar og hefur merki hljómsveitarinnar verið framan á búningum meistaraflokkanna.
„Samstarfið hefur verið frábært í alla staði. Við höfum haldið einkatónleika og styrktartónleika fyrir félagið og reynt að bera hróður þess sem og Mosfellsbæjar út um allan heim.
Það skemmtilegasta við þetta allt er hvað þetta sameinar samfélagið í Mosó og gerir mikið fyrir fólkið.“
Stefna að nýrri plötu með vorinu
Mosfellingarnir í KALEO hafa verið á tónleikaferðalagi frá því í júní. Fyrst var farið um Norður-Ameríku og nú eru þeir á ferð um Evrópu fram í miðjan desember. „Það er mikil stemning en ég neita því ekki að það er komin smá þreyta í hópinn.“
Strákarnir halda áfram tónleikaferð um heiminn á nýju ári og bíður þeirra Ástralía, Nýja Sjáland og Suður Ameríka svo eitthvað sé nefnt. „Svo stefnum við að því að gefa út nýja plötu næsta vor,“ segir Jökull.
„Við vonumst til þess að geta haldið tónleika á Íslandi á næsta ári. Við höfum verið að plana stóra tónleika heima í einhvern tíma en það þurfa nokkrir hlutir að ganga upp í takt við skipulag og tímaramma. Við lofum alla vega dúndur „showi“ þegar að því kemur,“ segir Jökull að lokum.