Allir út að leika!

Sævar Birgisson

Það er fátt sem gleður meira en að sjá bæinn okkar vaxa og dafna, ekki bara í tölum og framkvæmdum heldur einnig í lífi og leik.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið mikið unnið að því í Mosfellsbæ að bæta aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur. Í bæ þar sem íbúum fjölgar stöðugt og hlutfall barna og barnafjölskyldna er hátt, skiptir miklu máli að leik- og útivistarsvæði séu góð, örugg og aðgengileg.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni sem hefur átt sér stað á leikvöllum víðsvegar um bæinn, nýir og endurnýjaðir leikvellir eru nú orðnir enn meira áberandi hluti af bæjarmyndinni og það sýnir hversu mikla áherslu Mosfellsbær leggur á leik og samveru. Þessi uppbygging hefur verið eitt af áherslumálum Framsóknar og meirihlutans í Mosfellsbæ á kjörtímabilinu.
Má þar nefna leikvöllinn við Klapparhlíð, sem hannaður er með aðgengi fyrir öll börn í huga, leikvöllinn við Leirutanga, sem hefur fengið nýtt líf með gervigrasvelli, körfuboltavelli og fjölbreyttum leiktækjum, og nýju leikvellina við Liljugötu og Snæfríðargötu í Helgafellshverfi sem hafa þegar orðið vinsælir viðkomustaðir í hverfinu.
Eins hefur Ævintýragarðurinn fengið ýmsar viðbætur og lagfæringar sem heppnast hafa virkilega vel. Þá hefur leikvöllurinn í Lindarbyggð verið endurnýjaður og bættur til muna og er orðinn að skemmtilegu leik- og samverusvæði fyrir börn og fjölskyldur í hverfinu. Því til viðbótar hafa heilmiklar endurbætur átt sér stað við skólalóðir Varmárskóla og Lágafellsskóla, sem og leikskólalóðirnar við Hlíð og Hulduberg og Reykjakot. Að ógleymdu leiksvæðinu við nýjasta leikskóla bæjarins, Sumarhús í Helgafellshverfi.
Þessi leikvæði eru ekki bara staðir til að leika sér, þau eru hjartsláttur nærumhverfisins. Svæðin skapa rými þar sem börn fá að leika sér og efla hreyfigetu, og þar sem foreldrar hittast og mynda tengsl. Það að leggja áherslu á barnvænt umhverfi er ekki aðeins spurning um framkvæmdir, það snýst um lífsgæði. Með því að skapa aðstöðu sem hvetur til leiks, útivistar og samveru, erum við að styrkja grunninn að samfélagi þar sem börnum líður vel og allir fá að taka þátt.
Það er í raun þessi daglega samvera sem gerir samfélag eins og Mosfellsbæ að góðum stað til að ala upp börn.

Sævar Birgisson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ