Aldrei fleiri tillögur borist í Okkar Mosó
Alls bárust 140 tillögur frá íbúum í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021 og hafa þær aldrei verið fleiri. Nú stendur yfir mat og úrvinnsla tillagnanna hjá fagteymi starfsfólks á umhverfissviði Mosfellsbæjar. Hugmyndirnar eru metnar út frá þeim forsendum sem gefnar eru í söfnun hugmynda og mótaðar til uppstillingar fyrir kosningu. Í kjölfarið verður stillt upp allt að þrjátíu verkefnum sem íbúum gefst kostur á að kynna sér nánar og kjósa um í kosningum sem munu hefjast 31. maí og standa til 6. júní. Mosfellsbær var fyrst sveitarfélaga til þess að veita 15 ára og eldri íbúum kost á að taka þátt í kosningunni um verkefni og er það nú orðið aldursviðmið hjá flestum öðrum sambærilegum verkefnum. Íbúar eru hvattir til þess að kynna sér þau verkefni sem lögð verða í dóm kjósenda og taka þátt í að velja verkefni sem koma til framkvæmda á næstu tveimur árum. Gert er ráð fyrir því að kostnaður við framkvæmd verkefnanna nemi allt að 35 milljónum króna á tímabilinu.