Áhrif orkudrykkja á börn og ungmenni
Neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum er mikið áhyggjuefni enda með því mesta sem þekkist meðal ungmenna í Evrópu. Margir þeirra innihalda gríðarlegt magn koffíns sem er ávanabindandi efni og getur haft neikvæð áhrif á heilsu fólks – bæði líkamlega og andlega.
Börn og ungmenni eru mun viðkvæmari fyrir koffíni en fullorðnir og er neysla þess því sérstaklega slæm fyrir þann aldurshóp.
Nægur svefn er nauðsynlegur til að geta búið við góða heilsu. Börn og unglingar þurfa um níu til ellefu tíma svefn en niðurstöður íslenskrar rannsóknar (Rannsókn og greining) sýnir að helmingur unglinga nær ekki þessum viðmiðum.
Einnig hefur verið sýnt fram á að þau börn sem neyta mikils magns orkudrykkja eiga erfiðara með að sofna og mjög hátt hlutfall sefur lítið (minna en 6 tíma). Viðvarandi svefnleysi hefur áhrif á athygli, minni, ákvörðunartöku og rökhugsun en þessir þættir hafa mikil áhrif á námsárangur. Svefnleysi eykur einnig líkurnar á ýmiss konar tilfinninga- og hegðunarvanda eins og kvíða, pirringi, leiða og mótþróa.
Þess má geta að koffín er mun lengur í líkamanum en fólk gerir sér almennt grein fyrir en helmingunartími koffíns, þ.e. sá tími sem það tekur helming þess koffíns sem er neytt að hverfa úr líkamanum, er fimm til sjö klukkustundir. Ef við neytum koffíns seinnipartinn er mikið magn þess enn í líkamanum þegar við leggjumst til rekkju.
Börn líkja eftir þeirri hegðun sem þau sjá hjá öðrum. Munum að við sem foreldrar erum fyrirmyndir barnanna okkar og því mikilvægt að sýna gott fordæmi. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.
Arnar Ingi H. Friðriksson, sálfræðingur
skólaþjónustu Mosfellsbæjar og foreldri.