Afgangur af rekstri Mosfellsbæjar á síðasta ári
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði á miðvikudag og jafnframt tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Tekjur ársins námu alls 9.105 milljónum, launakostnaður 4.151 milljónum og annar rekstrarkostnaður 3.640 milljónum. Framlegð er því 1.314 milljónir en að teknu tilliti til fjármagnsliða er rekstrarafgangur A og B hluta 380 milljónir.
Veltufé frá rekstri er 1.109 milljónir eða rúmlega 12% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 4.681 milljón og eiginfjárhlutfall 29,4%. Skuldaviðmið er 108% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.
Betra en áætlanir gerðu ráð fyrir
Rekstrarniðurstaðan er talsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það má helst skýra með hærri óreglulegum tekjum vegna lóðasölu og byggingarréttargjöldum og lægra verðlagi en gert var ráð fyrir, sem hefur áhrif á fjármagnsliði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Fram undan er áframhaldandi uppbygging innviða í Mosfellsbæ. Á síðustu árum hefur verið verið lögð áhersla á uppbyggingu framhaldsskóla, íþróttahús, hjúkrunarheimili og stórbætt aðstaða fyrir félagsstarf eldri borgara.
Stærsta verkefnið sem sveitarfélagið hefur með höndum nú er bygging Helgafellsskóla. Það er leik- og grunnskóli í nýbyggingarhverfi í hraðri uppbyggingu sem áætlað er að muni kosta um 3.500 milljónir á næstu tíu árum.
Traustur og ábyrgur rekstur
„Það hefur verið mikil áskorun að reka sveitarfélag síðustu ár. Það má segja að við höfum verið stöðugt að endurskoða reksturinn frá árinu 2008 í þeirri viðleitni að láta enda ná saman. Það er því ánægjulegt að á þessum tímapunkti, þegar svo mikil uppbygging á sér stað að við skulum sjá árangur þess erfiðis,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Við viljum leggja áherslu á traustan og ábyrgan rekstur og það hafa allir starfsmenn hjá Mosfellsbæ snúið bökum saman í því verkefni. Fyrir það ber að þakka.“
Rúmur helmingur til fræðslumála
Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins en til hans runnu 3.604 milljónir eða 52% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.382 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks.
Íþrótta- og tómstundamál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 803 milljónum. Samtals er því 83% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundamála.
>> Íbúar Mosfellsbæjar voru 9.783 um síðustu áramót og hafði fjölgað um 3% á milli ára sem er í samræmi við spár þar um. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldinn fari yfir 10 þúsund á þessu ári. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 619 starfsmenn í 509 stöðugildum á árinu 2016.