Af hverju er ekki allir í berfættaskóm?
Berfættaskór (barefoot shoes) leyfa fótunum að hreyfast á náttúrulegan hátt. Þeir eru með þunna og sveigjanlega sóla, breiðan tákassa og enga hælshækkun. Ég er búinn að ganga í svona skóm í næstum tuttugu ár. Fyrst átti ég eitt par sem ég notaði nokkrum sinnum í viku, síðan hætti ég smám saman að nota „hefðbundna“ skó og í dag á ég nánast bara berfættaskó (er þetta ekki ágætis þýðing?).
Í dag eru fæturnir á mér í miklu betra standi en þegar ég var tvítugur. Innleggin eru löngu horfin og beinhimnubólgan sömuleiðis. Hvað segja rannsóknir? Af hverju ættu bæði börn og fullorðnir að ganga í berfættaskóm?
Í fyrsta lagi styrkja þeir innri vöðva fóta, sem stuðla að betri sveigju og draga úr hættu á algengum fótameiðslum eins og hælspennu. Sterkir fótvöðvar eru grundvöllur heilbrigðrar líkamsstöðu og góðrar hreyfigetu. Í öðru lagi stuðla þeir að auknu jafnvægi og líkamsvitund. Með betri snertingu við jörðina fá bæði börn og fullorðnir aukna stjórn á hreyfingum sínum. Þriðji helsti ávinningurinn er varðveisla (eða eins og í mínu tilviki, bæting) á náttúrulegu formi fóta. Skór með breiðum tákassa hjálpa til við að forðast aflögun eins og stóra táarbeygju og stuðla að eðlilegri sveigju, sérstaklega á mikilvægu þroskaskeiði barna. Fjórða atriðið er bætt göngulag og minna álag á liði. Með því að örva eðlilegt skrefamynstur, þar sem mið- eða framfótur lendir fyrst, minnkar höggálag á hné og mjaðmir, sem getur komið í veg fyrir álagsmeiðsli til lengri tíma.
Að lokum styðja berfættaskór við betri líkamsstöðu með því að halda hæl og tá í sömu hæð. Þetta getur dregið úr bakverkjum og stuðlað að betri heildarstöðugleika í líkamanum. Samantekið má segja að berfættaskór styðji við náttúrulega hreyfingu, efli styrk og minnki líkur á meiðslum – allt frá barnæsku fram á fullorðinsár. Sjáumst á röltinu!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. maí 2025