Af hverju barnvænt sveitarfélag?
Á mannréttindadegi barna, þann 20. nóvember síðastliðinn, hlaut Mosfellsbær viðurkenningu UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.
Verkefnið barnvæn sveitarfélög byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var á allsherjarþingi þeirra árið 1989. Alþingi lögfesti samninginn árið 2013 og öðlaðist hann þá sömu stöðu og önnur löggjöf í landinu.
Verkefninu barnvæn sveitarfélög er ætlað að styðja sveitarfélög til að innleiða barnaréttindanálgun í stefnumótun sinni og ákvörðunum. Það er nefnilega þannig að án atbeina sveitarfélaga getur ríkisvaldið tæplega uppfyllt Barnasáttmálann þar sem það eru sveitarfélögin sem sinna að stærstum hluta þeim verkefnum sem hafa bein áhrif á daglegt líf barna á Íslandi. Með innleiðingu Barnasáttmálans samþykkja sveitarfélög að ákvæði hans verði sem rauður þráður í allri starfsemi þeirra og markvisst samráð og samstarf verði við börn og ungmenni varðandi þjónustu sveitarfélagsins.
Undirbúningur
Viðurkenningin byggir á gríðarlega mikilli og góðri vinnu starfsfólks Mosfellsbæjar og ekki síst barna og ungmenna. Skipaður var stýrihópur sem samanstóð af sviðsstjórum, kjörnum fulltrúum og fulltrúum frá ungmennaráði. Með stýrihópnum starfaði verkefnastjóri sem hélt öllum þráðum verkefnisins saman. Ungmennaráð Mosfellsbæjar hefur lagt gríðarlega vinnu í undirbúninginn og þátttaka þess verið lykilþáttur í að svo vel tókst til sem raun ber vitni.
Leiðin til viðurkenningar hefur verið löng en það var í janúar 2021 sem Mosfellsbær skrifaði undir samkomulag við félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu. Innleiðing verkefnisins skiptist upp í nokkur skref. Eitt af fyrstu skrefunum var að stýrihópurinn greindi stöðu mála varðandi börn í sveitarfélaginu með því að svara spurningalistum frá UNICEF. Sú vinna var mjög mikilvæg. Auðvitað kom í ljós að það voru ýmsir þættir sem við stóðum okkur ekki nógu vel í en það þýddi bara tækifæri til úrbóta og voru allir sem að vinnunni komu sammála um að það væri jákvætt. Það er nefnilega þannig að ef við viðurkennum ekki að eitthvað megi betur fara þá verður engin framþróun.
Aðgerðir
Langt innleiðingaferli barnvæns sveitarfélags sýndi mikilvægi sveigjanleika og aðlögunar að þeim tengdu verkefnum sem hófust á innleiðingartímanum. Á þessu kjörtímabili hafa verkefni tengd börnum og þeirra umhverfi verið umfangsmikil hjá okkur í Mosfellsbæ. Þrjú þau stærstu er Börnin okkar, innleiðing farsældar barna skv. lögum og lýðræðisverkefnið Krakkar Mosó. Nokkrar aðgerðir úr fyrrgreindum verkefnum urðu hluti af aðgerðaáætlun Barnvæns sveitarfélags.
Aðgerðaáætlun Barnvæns sveitarfélags, 31 aðgerð, sem viðurkenningin byggist á var umfangsmikil og metnaðarfull og leiddi af sér breytingar í þjónustu og verklagi innan sveitarfélagsins. Nokkrar þeirra eru: Lágþröskuldarþjónusta Bergsins, barnvænt hagsmunamat í nefndastarfi, Helgafellsskóli réttindaskóli UNICEF, íþróttaverkefni fyrir börn með fötlun, handbók fyrir ungmennaráð sem styrkir þátttöku þess innan stjórnsýslunnar, aukin ráðgjöf sálfræðinga innan skólanna, samtöl við ungmennaráð um umhverfis- og skipulagsmál sem eru í deiglunni. Stærsti viðburðurinn var Barna- og ungmennaþingið í apríl 2023 en þingið sóttu ríflega 90 nemendur 5.-10. bekkja grunnskóla. Ungmennaráð skipulagði þingstörf og var gestgjafi þingsins.
Við segjum oft að framtíðin sé barnanna en þegar betur er að gáð þá er dagurinn í dag barnanna. Ákvarðanir okkar snerta þau núna. Þess vegna er mikilvægt að raddir þeirra heyrist og að þau fái tækifæri til að taka þátt. Viðurkenningin sem barnvænt sveitarfélag er ekki bara rós í hnappagat Mosfellsbæjar, heldur líka og ekki síður fyrirheit um að við ætlum að halda áfram. Vegferðinni er ekki lokið, hún er nýhafin.
Fræðast má nánar um barnvæn sveitarfélög hér: www.barnvaensveitarfelog.is
Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður stýrihóps um barnvænt sveitarfélag




