Ævisaga séra Braga Friðrikssonar komin út
Hann ólst upp í Mosfellssveit og ítarlega er fjallað um uppvöxt hans í bókinni
Á dögunum var bókin Séra Bragi – ævisaga gefin út; umfangsmikil ævisaga séra Braga Friðrikssonar, fyrsta heiðursborgara Garðabæjar og eins áhrifamesta prests landsins á sinni tíð.
Ævisaga séra Braga Friðrikssonar er stórbrotin saga brautryðjanda og hugsjónamanns. Hann fæddist við erfiðar aðstæður, gekk í gegnum djúpar raunir en reis upp og hafði mikil áhrif á samtíð sína og framtíð.
Séra Bragi Friðriksson kom víða við á langri ævi. Hann fæddist utan hjónabands árið 1927 og fór milli fósturheimila á Ísafirði, í Mosfellssveit, Miðfirði, á Siglufirði og Akureyri.
Að alast upp í Mosfellssveit
Bragi ólst upp á Sólvöllum í Mosfellssveit að hluta, en í bókinni er sagt ítarlega frá tíma hans þar. Bragi lýsti uppvexti sínum í Mosfellssveit með ítarlegum hætti á segulbandsupptöku sem hann skildi eftir fyrir niðja sína og vini. Þar lýsir hann mannlífinu í Reykjahverfinu en upptakan er ómetanleg heimild um Mosfellssveit á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar og hvernig barnsaugað leit lífið þá.
Síðar flutti Bragi annað, gekk síðan í Menntaskólann á Akureyri, missti tvö börnin sín, veiktist alvarlega af Akureyrarveikinni og hræddist um líf sitt, en hét Guði á sjúkrabeði sínum að helga líf sitt honum ef hann fengi að lifa.
Hann nam guðfræði við Háskóla Íslands, en á námsárum hans kenndi hann einnig við Brúarlandsskóla í Mosfellssveit og er ítarlega fjallað um þann tíma í bókinni.
Bragi var einnig einn fremsti frjálsíþróttamaður þjóðarinnar á sínum tíma, sló fjölda drengjameta og Íslandsmet, einkum í kúluvarpi og kringlukasti. Eitt meta hans stóð í 56 ár.
Maður sem reis úr mótlæti
og varð öðrum leiðarljós
Hann vígðist fyrstur íslenskra presta til prestsþjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada og þjónaði þar frá 1953-1956. Ítarlega er fjallað um tíma hans þar í bókinni. Hann kom síðan heim og var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur þar sem honum var fengið það hlutverk að skipuleggja æskulýðsstarf borgarinnar og þar með þjóðarinnar allrar frá grunni.
„Faðir Garðabæjar“
Séra Bragi flutti síðan í Garðahreppi og varð þar stafnbúi, stofnaði Ungmennafélagið Stjörnuna og kom að stofnun fleiri félaga, var formaður skólanefndar og æskulýðs- og leikvallanefndar, og kom sem slíkur mjög að þróun skóla- og æskulýðsmála í hreppnum. Hann var nefndur „faðir Garðabæjar“ og útnefndur fyrsti heiðursborgari bæjarins árið 2001. Hann var prestur í Garðaprestakalli, sem samanstóð af Garðasókn, Bessastaðasókn og Kálfatjarnarsókn, frá 1966-1997.
Hann breytti skipan kirkjunnar – margir vildu hann sem biskup
Séra Bragi var á meðal fremstu þjóna kirkjunnar, hann var umbreytingarmaður sem breytti skipulagi hennar með störfum sínum sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar og sat á kirkjuþingi um árabil. Margir vildu sjá hann sem biskup, meðal annars Sigurbjörn Einarsson biskup, en séra Bragi vildi það ekki og sagði einfaldlega: „Maður fer ekki frá Garðaprestakalli.“
Séra Bragi – ævisaga fæst í verslunum Pennans Eymundsson, Hagkaup Garðabæ, Kirkjuhúsinu, Bókabúð Forlagsins og á www.serabragi.is
Hrannar Bragi Eyjólfsson




