Að eiga bakland til að sækja börnin á leikskólann
Nú er leikskólatími barna í Mosfellsbæ á föstudögum til kl. 14:00 nema fyrir þau sem nauðsynlega þurfa lengri vistunartíma, vinnu sinnar vegna. Þá er hægt að sækja sérstaklega um með átta daga fyrirvara að ná í börnin klukkan 16:00. Þetta hefur leitt til óánægju og óvæntra áskorana fyrir margar fjölskyldur.
Jafnréttisskekkja í barnvænu sveitarfélagi?
Óformleg könnun sýnir að konur sjá oftast um að sækja börnin fyrr á leikskóla. Launamunur kynjanna gerir það að verkum að konur taka frekar á sig þessa ábyrgð með tilheyrandi áhrifum á þeirra starfsframa.
Þetta fyrirkomulag setur óþarfa pressu á mæður, sem eru þegar undir miklu álagi í að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Þá má benda á að Mosfellsbær er staðsettur á jaðri höfuðborgarsvæðisins og langflestir sækja vinnu utan bæjarfélagsins.
Stytting leikskóla hefur því ekki aðeins áhrif á daglegt líf fjölskyldna heldur ýtir einnig undir ójafnrétti kynjanna, þar sem konur þurfa nú enn frekar að velja á milli vinnu og fjölskyldulífs. Væri það ekki eðlilegra að Mosfellsbær myndi styðja við fjölskyldur í stað þess að skapa ný vandamál?
Óskýr grein og hentugar niðurstöður formanns fræðslunefndar
Formaður fræðslunefndar fullyrti að 70% foreldra þurfi ekki lengri vistunartíma en til kl. 14:00. Þetta kemur á óvart þar sem ótal margir foreldrar í kringum mig hafa lýst yfir erfiðleikum við að sækja börnin svona snemma. Þessi fullyrðing virðist ekki endurspegla raunveruleikann sem margir foreldrar upplifa, þar sem þau hafa leitað til ömmu og afa, tekið vinnuna með sér heim eða jafnvel unnið á laugardögum til að mæta kröfunni. Einhverjir héldu því fram að með því að „framlengja“ vistunartímann til kl. 16:00 á föstudögum færu þessir tveir tímar af þeim átta skráningardögum sem foreldrar hafa til umráða. Ég leyfi mér líka að opna á það hvaða áhrif þetta getur haft á börnin sem eiga erfitt með breytingar og þurfa skýran ramma.
Steininn tók svo úr þegar móðir í fæðingarorlofi var spurð hvers vegna hún þyrfti að sækja barnið sitt kl. 16:00 ef hún væri hvort eð er bara heima. Þarna birtist sú undarlega afstaða að lengd vistunar á leikskóla eigi að ráðast af vinnu foreldra en ekki þörfum fjölskyldunnar. Þá hefur orðalag leikskólastjóra verið undarlegt og jafnvel ýtt undir samviskubit hjá foreldrum. Orðalagið ,,en þetta er eftir sem áður eingöngu fyrir þá sem hafa enga aðra kosti en að skrá barn í lengri viðveru“ gefur í skyn að þegar öllu er á botninn hvolft, þurfi enginn á þessari framlengingu að halda nema viðkomandi sé að vinna á bráðamóttöku Landspítalans. Þetta verður að þykja ósanngjarnt þar sem atvinnulífið og einkarekstur hafa ekki öll innleitt styttingu vinnuvikunnar. Ég tel einnig að foreldrar væru til í að nýta baklandið sitt í eitthvað annað en að dekka föstudaga og fá frekar pössun þegar eitthvað sérstakt tilefni gefst eða þegar virkilega er þörf á.
Ef þetta er spurning um styttingu vinnuvikunnar vil ég ítreka að styttingin þarf að taka tillit til starfsemi stofnunarinnar, má ekki hafa aukinn kostnað í för með sér og ekki skerða þjónustu. Þá má geta þess að þeir sem eru með styttingu vinnuvikunnar í sínum kjarasamningum eru ekki alltaf með styttingu á föstudögum, heldur getur það einnig verið breytilegt.
Lausnir og framtíðarhorfur
Lausnin gæti verið einföld. Þeir sem ekki þurfa lengri vistun skrái börnin sín þannig yfir önnina. Við hin, sem þurfum að skila af okkur fullum vinnudegi, fáum að klára vinnuna en ekki anda í bréfpoka á leiðinni upp Ártúnsbrekkuna korteri eftir hádegismat að reyna finna út hvenær við vinnum þessa tíma upp. Með þessu móti er tekið tillit til allra foreldra, óháð vinnuaðstæðum og jafnrétti innan sveitarfélagsins þannig tryggt.
Ef Mosfellsbær vill kalla sig barnvænt sveitarfélag þarf að hugsa um heildarmyndina og ekki aðeins velja lausnir sem henta fræðsluyfirvöldum og leikskólastjórnendum. Foreldrar eru mikilvægur hlekkur í þessari ákvarðanatöku og það er ekki bara sanngjarnt heldur einnig nauðsynlegt að þeir séu hafðir með í ráðum þegar breytingar á þjónustu barna þeirra eiga sér stað.
Það má líka benda á, að þau sem sitja í bæjarráði, eiga ekki börn á leikskólaaldri og þurfa því ekki að aðlaga sig og sína fjölskyldu að þessari skerðingu.
Guðfinna Birta Valgeirsdóttir