Á að slá fram að jólum?

Úrsúla Jünemann

Það vekur furða mína að enn þá eru sláttuvélar að störfum við að nauðraka alla grasfleti í Mosfellsbænum þótt það sé komið fram í seinni part september. Og grassprettan er eiginlega búin.
Það er eins og menn vilji ekki sjá eina einustu blómstrandi jurt. Sama var á teningunum í vor: varla var snjórinn farinn þá byrjuðu sláttuvélar að bruna um allan bæinn, alveg sama hvort eitthvað gras var farið að vaxa.
Svona snöggslegnar grasflatir henta auðvitað til að spila fótbolta eða golf. En annars eru þetta algjörlega dauð vistkerfi. Af hverju mega ekki villt blóm njóta sín alla vega sums staðar? Þau gefa býflugum, humlum og fleirum skordýrum næringu og þessi smádýr eru ósköp mikilvæg fyrir frjóvgun margra plantna.
Mig grunar að fyrirtækin sem standa fyrir þessum allt of öra grasslætti vanti verkefni. Mosfellbær gæti sparað talsvert með því að fækka þessu. Ég skora á umhverfisnefndina að skoða þetta á næsta ári. Hér er þörf á hugarfarsbreytingu.

Úrsúla Jünemann