Fyrsti Mosfellingur ársins
Fyrsti Mosfellingur ársins 2026 er dásamleg stúlka sem fæddist á Akranesi kl. 21.34 þann 1. janúar og mældist 3.726 gr og 51 cm. Foreldrar hennar eru þau Stefanía Katrín Einarsdóttir og Magnús Veigar Ásgrímsson. Þau hafa búið í Mosfellsbæ í eitt ár ásamt hundinum Heklu.
„Ég var sett þann 31. desember en fór svo í gangsetningu á nýársdagsmorgun, verkirnir fóru að koma um kl. 18, við vorum komin upp á Skaga rétt fyrir kl. 20 og hún fæðist svo um einum og hálfum tíma síðar. Mosfellingurinn Hafdís Rúnarsdóttir var ljósmóðirin okkar og hún var alveg yndisleg,“ segir Stefanía.
Þetta er allt skrifað í skýin
„Við erum alveg rosalega ánægð hérna í Mosfellsbæ og hlökkum til að ala dóttur okkar upp hérna. Við höfum smá tengingu í Mosó og í fyrrahaust tókst okkur að smygla okkur í KALEO ferð Aftureldingar til Lissabon, eftir þá ferð vorum við alveg ákveðin í að hér vildum við búa. Viku eftir heimkomu var tilboði tekið í þessa íbúð, við fluttum hérna inn í kringum áramótin og skelltum okkur svo á þorrablótið. Við uppgötvuðum svo um páskana að von væri á dömunni og svo fær hún titilinn fyrsti Mosfellingur ársins, þetta er allt skrifað í skýin,“ segir stoltur faðirinn Magnús Veigar.



