Saman mótum við framtíðina
Mosfellsbær er samfélag í stöðugri þróun. Uppbygging, fólksfjölgun og breyttar þarfir kalla á framsýna stefnumótun og virkt samtal við íbúa. Í slíkri þróun skiptir máli að fleiri sjónarmið fái vægi – ekki síst sjónarmið ungs fólks.
Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, sem fram fer 31. janúar 2026.
Ég er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og hef alla tíð átt hér heima með fjölskyldu minni. Hér hef ég gengið í skóla, stundað íþróttir, tekið þátt í menningarlífi og starfað með börnum og ungmennum. Skólaganga mín hófst í Krikaskóla, hélt áfram í Varmárskóla og lauk í Kvíslarskóla.
Frá unga aldri hef ég tekið virkan þátt í samfélaginu, meðal annars með því að stunda handbolta fyrir Aftureldingu upp alla yngri flokka og einnig í meistaraflokki félagsins, auk þess að leika á trompet og taka þátt í því frábæra starfi sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar hefur að geyma.
Jafnframt hef ég öðlast mikilvæga reynslu af störfum innan skólakerfisins, meðal annars með starfi á leikskóladeild Krikaskóla og í Helgafellsskóla. Þá tók ég einnig þátt í sumarvinnuverkefnum Mosfellsbæjar fyrir ungmenni. Sú reynsla veitti mér dýrmæta innsýn í starfsemi sveitarfélagsins og undirstrikaði mikilvægi þess að styðja ungt fólk til ábyrgðar, þátttöku og virkni í samfélaginu.
Ungt fólk býr yfir ferskri sýn og skýrum hugmyndum um þau málefni sem snerta daglegt líf í Mosfellsbæ – svo sem skólamál, tómstundastarf, húsnæðismál og lýðræðislega þátttöku. Þrátt fyrir það finnst mér rödd ungs fólks of oft vera vanmetin í opinberri umræðu. Með því að tryggja ungu fólki raunverulega aðkomu að ákvarðanatöku styrkjum við lýðræðið og byggjum upp samfélag sem endurspeglar breiðari og réttlátari sjónarmið.
Ég legg sérstaka áherslu á málefni barna og ungmenna. Þar tel ég brýnt að efla skóla- og leikskólastarf, styrkja fjölbreytt tómstundalíf og skapa öruggt og hvetjandi umhverfi þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að blómstra. Jafnframt tel ég mikilvægt að sveitarfélagið leggi aukna áherslu á forvarnir, meðal annars með því að styðja við sterkt félagslegt umhverfi, efla snemmtækan stuðning og vinna í nánu samstarfi við skóla, foreldra, íþrótta- og frístundastarf. Með markvissum forvörnum er hægt að bregðast fyrr við áskorunum og draga úr vanda áður en hann verður alvarlegur. Slík fjárfesting er ekki aðeins samfélagsleg skylda heldur forsenda sterks og sjálfbærs Mosfellsbæjar til framtíðar.
Jafnframt tel ég mikilvægt að Mosfellsbær sé réttlátt og skilvirkt sveitarfélag þar sem stjórnsýsla er gagnsæ og ákvarðanir teknar á málefnalegum og sanngjörnum grundvelli. Laganám mitt hefur styrkt skilning minn á mikilvægi skýrra leikreglna, vandaðrar málsmeðferðar og ábyrgðar gagnvart íbúum. Traust íbúa til sveitarfélagsins er grundvallarforsenda virks lýðræðis.
Framsækið samfélag byggir á samspili reynslu og nýrrar hugsunar. Ég er tilbúin að hlusta, læra og vinna af heilindum fyrir Mosfellsbæ og leggja mitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar.
Saman tryggjum við framsækinn, öruggan og umhyggjusaman Mosfellsbæ og ég óska eftir stuðningi þínum í 5. sætið.
Nanna Björt Ívarsdóttir




