Tillögur til fjárhagsáætlanagerðar fyrir árið 2026

Dagný Kristinsdóttir

Í desember ár hvert samþykkir bæjarstjórn fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Þar er búið að setja saman rekstur sveitarfélagsins og þær framkvæmdir sem á að fara í, hvort sem um er að ræða viðhald eða nýframkvæmdir.
Við í Vinum Mosfellsbæjar höfum tamið okkur þau vinnubrögð að vera sammála góðum hugmyndum og greiddi ég, sem kjörinn fulltrúi, atkvæði með ákveðnum tillögum meirihlutans og Sjálfstæðismanna. Því það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur.
Við lögðum fram tvær tillögur til fjárhagsáætlanagerðar á komandi ári.

Göngustígur á milli Dælustöðvarvegar og Reykjabyggðar verði upplýstur
Göngustígurinn er innan Reykjahverfis og langt utan almennrar götulýsingar. Yfir veturinn er hann mjög dimmur og getur verið hættulegur yfirferðar. Í hverfinu er einn lítill stígur með lýsingu, hún er ekki mikil en nægir til að auka öryggi gangandi vegfarenda, maður sér t.d. hvar er hálka. Helstu göngustígar bæjarins eru mokaðir og sandaðir þegar þannig stendur á, en mjög margir eru það ekki, t.d. göngustígar inni í götum og inni í hverfum, eins og þessi sem um ræðir. Verið er að leggja lokahönd á lýsingu á flugvallarhring fyrir hestafólk og því er í lófa lagið að halda þessari vegferð áfram og skoða hvernig er hægt að bæta aðstöðu okkar íbúanna til hreyfingar og heilsueflingar. Og var það hugmyndin að þessari tillögu.
Óskað var eftir því að þessari tillögu yrði vísað til Umhverfissviðs til kostnaðarmats og skoðunar. Fara þyrfti yfir hvaða lýsing hentar, væri hægt að nota eldri staura, hreyfiskynjara o.s.frv.
Meirihlutinn felldi tillöguna, þar sem ekki væri hægt að taka einn göngustíg út úr framkvæmdaáætlun og ekki lægi ljóst fyrir hvort um væri að ræða formlegan skilgreindan stíg eða slóða. Þeir sem hafa gengið stíginn vita að hann er vel malbikaður, beinn og breiður.

Mosfellsbær niðurgreiði strætó­kort fyrir 12-17 ára ungmenni
Hugmyndin með þessari tillögu var að sveitarfélagið veiti ungmennum á aldrinum 12-17 ára afslátt vegna kaupa á strætókortum. Mosfellsbær er ungt sveitarfélag og mörg heimili eru með eitt eða fleiri ungmenni á sínu framfæri. Afsláttur sem þessi myndi létta undir með heimilum í bænum og hvetja ungmennin til að nota strætó. Það aftur gæti þýtt að skutl mosfellskra foreldra myndi minnka, en við eigum þann vafasama heiður að vera Íslandsmeistarar í skutli. Bent var á að hægt væri að innleiða þessa tillögu í skrefum, t.d. með því að byrja á 12 ára ungmennum. Árskort fyrir 12-17 ára ungmenni kostar 56.000 kr. 20% afsláttur af strætókorti á ári væri 11.200 krónur. Gefum okkur að 70 börn nýti sér afsláttinn, þá væri kostnaður sveitarfélagsins 784 þúsund krónur á árinu.
Við teljum þessa hugmynd mjög góða en meirihlutinn sá þetta ekki sömu augum og felldi tillöguna.
Tillagan er til þess fallin að koma til móts við heimilin í sveitarfélaginu og þjálfa unga fólkið okkar upp í það að vera virkir notendur almenningssamgangna. Við eigum að þora að taka forystu og bjóða upp á almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost.
Við sendum Mosfellingum öllum nýárskveðjur, með von um að árið verði okkur öllum gjöfult og gott.

Dagný Kristinsdóttir
Oddviti Vina Mosfellsbæjar