Fjórða fjárhagsáætlunin
Bæjarstjórn hefur nú afgreitt síðustu fjárhagsáætlun yfirstandandi kjörtímabils. Í því snúna rekstrarumhverfi sem sveitarfélögin búa við er niðurstaða áætlunarinnar góð eða 557 milljónir fyrir A og B hluta.
Mikilvægt er að rekstur bæjarsjóðs er ekki háður byggingarréttargjöldum sem er einsdæmi á höfuðborgarsvæðinu. Með fjárhagsáætluninni fylgir einstaklega yfirgripsmikil og skýr greinargerð sem geymir mikið magn áhugaverðra og aðgengilegra upplýsinga um reksturinn og viðfangsefnin sem starfsfólk sveitarfélagsins fæst við alla daga. Við hvetjum bæjarbúa til að skoða hana.
Meirihluti B, S og C lista er stoltur af þessari fjárhagsáætlun og þeirri góðu vinnu sem starfsfólkið undir stjórn bæjarstjóra hefur lagt í hana og séð til þess að markmið okkar um ábyrgan rekstur næðust án skerðingar á þjónustu.
Tekjur og útgjöld
Tekjur sveitarfélaga eru fyrst og fremst samsettar af útsvarsgreiðslum íbúa, framlagi frá Jöfnunarsjóði, fasteignasköttum og lóðarleigu. Fyrir þessa fjármuni er þjónusta sveitarfélagsins rekin. Það var sérstaklega tvennt sem reyndist sérstök áskorun við gerð þessarar fjárhagsáætlunar. Annars vegar lækkuð framlög frá
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um 100 milljónir og hins vegar launahækkanir skv. kennarasamningum sem urðu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hvoru tveggja fylgdu úrlausnarefni sem bæjarstjóri og hennar góða fólk leysti farsællega.
Stærsti hluti útgjalda bæjarsjóðs fer í rekstur leik- og grunnskóla og velferðarmála en heildar rekstrarútgjöld til málaflokka sveitarfélagsins eru áætluð um 19,6 milljarðar króna. Áfram mun Mosfellsbær leggja áherslu á traustan rekstur með áherslu á börn og barnafjölskyldur, lýðheilsu bæjarbúa, íþróttir og almenna virkni og velferð íbúa á öllum aldri.
Framkvæmdir
Við höldum áfram nauðsynlegum og metnaðarfullum framkvæmdum. Mikil innviðaskuld blasti við okkur í upphafi kjörtímabilsins og við höfum markvisst unnið að því að greiða niður þá skuld og höldum því áfram. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar sem þær framkvæmdir hafa kallað á hefur okkur tekist á kjörtímabilinu að lækka skuldaviðmiðið í 102% úr 106,6% sem er það stóð í þegar við tókum við.
Áætlað er að framkvæma fyrir um 4 milljarða króna á árinu 2026. Þar má t.d. nefna til sögunnar áframhaldandi endurgerð og endurbætur á leikvöllum og skólalóðum. Þá verður lokið við umfangsmiklar endurbætur á Varmárskóla. Skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni verður opnuð á árinu sem og fjölskylduheimili fyrir börn.
Bygging og rekstur nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá verður boðin út, en þess má geta að 37% af heildarfjárfestingum fara í íþrótta- og tómstundamannvirki. Að auki verða síðan umfangsmiklar veitu- og gatnaframkvæmdir í takti við vaxandi íbúafjölda.
Forgangsröðun
Það er ekki hægt að gera allt á sama tíma og það er heldur ekki hægt að uppfylla vonir og væntingar allra alltaf. Kjörnir fulltrúar verða því að þora að forgangsraða, taka ákvarðanir og standa við þær. Samtímis þarf að vera sveigjanleiki til að bregðast við óvæntum úrlausnarefnum af yfirvegun og skynsemi.
Meirihluti B, S og C lista er gríðarlega stoltur af þeirri forgangsröðun sem hann hefur unnið eftir á kjörtímabilinu. Börnin og þeirra fólk hafa verið í forgrunni hjá okkur. Verkefni eins og „Börnin okkar“ hafa vakið verðskuldaða athygli víða og mun þeim verða haldið áfram. Ákvörðun um að taka rekstur Hlégarðs aftur til bæjarins hefur sannað sig og hleypt krafti í menningarlífið.
Lýðheilsa, málefni sem snertir einstaklinga á öllum aldri og samfélagið allt, hefur verið rauður þráður í uppbyggingu heilbrigðs og fjölskylduvæns samfélags sem tekur utan um alla.
Við kveðjum árið 2025 með stolti í hjarta og horfum bjartsýnar mót hækkandi sól. Mosfellingum öllum sendum við okkar bestu jóla- og nýárskveðjur.
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar





