Reykjalundur 80 ára

Birgir D. Sveinsson myndritstjóri bókarinnar, Pétur Bjarnason höfundur og Bjarki Bjarnason ritstjóri. Ljósmynd: Pétur Magnússon.

Út er komin saga Reykjalundar í veglegri og ríkulega myndskreyttri bók. Pétur Bjarnason, fyrrum skólastjóri í Varmárskóla, er höfundur hennar, hann hefur áður ritað sögu SÍBS sem kom út árið 2013.
Saga Reykjalundar er mikil og merkileg, upphafið má rekja til ársins 1945 þegar starfsemin hófst í hermannabröggum á eyðilegum mel í landi Suður-Reykja í Mosfellssveit. Þá hafði berklaveiki herjað á landsmenn um áratugaskeið en Reykjalundur átti drjúgan þátt í að sigur hafðist í þeirri baráttu.
Frá fyrstu tíð var litið á Reykjalund sem vinnuheimili, berklar og aðrir sjúkdómar áttu ekki að dæma fólk til iðjuleysis, allir gátu starfað eitthvað, miðað við getu sína. Pétur Bjarnason nefnir þetta í formála bókarinnar og skrifar: „Saga berklaveiki og berklavarna á Íslandi er athyglisverð. Vífilsstaðahæli, Kópavogshæli, Kristneshæli og Reykjahæli í Ölfusi voru byggð á árunum 1910-1931. Fyrrum berklasjúklingar mættu miklum fordómum vegna ótta við smit og þeir áttu margir erfitt með að fá atvinnu. Því voru settar á stofn vinnustofur á öllum þessum berklahælum með áform um að endurhæfa berklasjúklinga eftir lækningu. Hvergi tókst það eins og til stóð vegna ásóknar í sjúkrahúsrými fyrir berklaveika.
Þegar SÍBS stóð að stofnun Vinnuheimilisins að Reykjalundi í febrúar 1945 var strax ákveðið að starfsemin þar myndi ekki fara á sömu leið. Ákvæði var sett í reglugerð sem kvað á um að ef vistmaður veiktist á ný skuli vísa honum á viðeigandi sjúkrahús. Að fengnum bata átti hann forgang að vistun á ný. Þetta var lykillinn að því að Reykjalundur var frá upphafi og alla tíð endurhæfingarstofnun en ekki enn eitt berklahælið.“

Bókin um sögu Reykjalundar skiptist í tíu kafla, þeir heita til dæmis:
Brugðist við berklaveikinni.
Reykjalundarheimilið.
Frá vinnuheimili að verksmiðjurekstri.
Reykjalundur. Endurhæfing ehf.
Reykjalundur eftir áttatíu ára starf.
Við gerð bókarinnar lögðu margir hönd á plóg, auk höfundarins. Bjarki Bjarnason var ritstjóri verksins, Birgir D. Sveinsson myndritstjóri og Eyjólfur Jónsson annaðist umbrot bókarinnar. Magnús B. Óskarsson sá um kápuhönnun, Ýr Þórðardóttir las prófarkir og Raggi Óla tók margar ljósmyndir í bókina, þar meðal afar fallega forsíðumynd. Í ritnefnd bókarinnar sátu Jónína Sigurgeirsdóttir, Pétur Magnússon og Rósa María Guðmundsdóttir.
Reykjalundur. Endurhæfing í 80 ár fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins, einnig á Reykjalundi og skrifstofu SÍBS.

Birgir D. Sveinsson, Bjarki Bjarnason og Pétur Bjarnason