Heima er best

Ýmir Örn Hafsteinsson

Kæru Mosfellingar, bærinn okkar er einstakur staður.
Hann umvefur okkur öll hvort sem við erum einstaklingar, fjölskyldufólk með börn, ungt fólk á leið út í lífið úr foreldrahúsum eða eldri kynslóðin sem ætlar að eiga hér áhyggjulaust ævikvöld. Það er þó margt sem þarf að huga að þegar samfélagið vex svona hratt. Ég vil tala sérstaklega um einn málaflokk sem skiptir okkur öll máli, það eru húsnæðismálin.
Mosfellsbær er eitt eftirsóttasta sveitarfélag landsins. Hér býr sterkt samfélag, þjónusta sem í boði er til fyrirmyndar og þetta rammar inn falleg náttúra sem er hér allt um kring.
Einmitt í þessu umhverfi kjósa fjölmargir að ala börnin sín upp.
Við vitum hins vegar öll að húsnæðismál í Mosfellsbæ eru og verða áskorun, rétt eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Ungt fólk stendur frammi fyrir verulega krefjandi húsnæðismarkaði.
Staðan er engu síður sú að hér er verið að byggja gríðarlegt magn af íbúðum sem ber að fagna, enda liggur í augum uppi að það þarf að byggja meira vítt og breitt um allt land.
Þótt jákvæð teikn séu í kortunum eigum við að stefna enn hærra að mínu mati, Framsókn hefur sýnt metnað í uppbyggingu húsnæðis víðsvegar um landið en ég veit að flokkurinn hefur meiri metnað og stærri sýn á húsnæðismarkaðinn og vill gera enn betur.
Það sem hefur mikil áhrif og gæti skipt sköpum í húsnæðismálum er einföldun regluverks við uppbyggingu húsnæðis. Við eigum að setja aukinn þunga í baráttu fyrir umbótum í þeim málum en það er einmitt þetta íþyngjandi regluverk sem tefur einfaldlega fyrir aukinni uppbyggingu.
Ungt fólk á rétt á því að eiga möguleika á að eignast sitt eigið húsnæði og á ekki að þurfa að horfa upp á að það markmið sé nær óyfirstíganlegt eins og staðan er í dag. Ungt fólk vill fara út í lífið og jafnvel stofna fjölskyldu og búa í sínum heimabæ. Við í Framsókn höfum talað fyrir því að einfalda regluverk og auðvelda ungu fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn án þess að það hafi í för með sér allar þær flækjur sem við verðum að sætta okkur við í dag.
Framsókn er flokkur fyrir ungt fólk sem á sér draum um sitt eigið húsnæði.

Ýmir Örn Hafsteinsson,
stoltur Mosfellingur og viðburðastjóri Sambands ungra Framsóknarmanna.