Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2026

Ásgeir Sveinsson

Meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar hefur samþykkt sína síðustu fjárhagsáætlun á þessu kjörtímabili.
Meirihlutinn er ánægður með niðurstöðuna sem þau telja að sé jákvæð og að reksturinn sé á traustum grunni. En þegar tölurnar eru rýndar, þá blasir við önnur mynd sem við fulltrúar D-lista í bæjarstjórn teljum mikilvægt að varpa ljósi á svo íbúar fái skýra mynd af stöðu mála, án jólaskreytinga og fallegra umbúða.

Ósjálbær grunnrekstur
Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 557 m.kr. rekstrarafgangi A- og B-hluta, en afgangur A-hluta er einungis 254 milljónir króna. Enn eitt árið byggir hann nánast að öllu leyti á einskiptistekjum vegna lóðasölu og byggingaréttar sem er áætlaður 250 milljónir á næsta ári.
Þetta er fjórða árið í röð sem afgangur A-hluta byggir á þessum ótryggu einskiptistekjum og það liggur því fyrir að núverandi meirihluti hefur rekið sveitarfélagið með ósjálbærum hætti allt kjörtímabilið. Það er því rangt að tala um sjálfbæran rekstur þegar staðan er með þessum hætti.

Óraunhæfar forsendur
Rekstrarniðurstaðan í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2026 byggir á forsendum um 3,5% verðbólgu og vaxtalækkunum á árinu 2026.
Það eru forsendur sem eru vægast sagt ótryggar miðað við stöðu efnahagsmála og það má mjög lítið út af bregða til þess að rekstur bæjarfélagsins verði mun verri á næsta ári en fyrirliggjandi fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir. Þetta getur ekki talist ábyrg fjármálastjórn.

Auknar skuldir og lántökur
Skuldaviðmið A- og B-hluta er áætlað 102% í árslok 2026 og hefur það hækkað jafn og þétt allt kjörtímabilið. Samkvæmt langtímaáætlun meirihlutans mun skuldaviðmið halda áfram að hækka á næstu árum. Álögur á íbúa halda áfram að hækka og þá sérstaklega fasteignagjöld sem hafa hækkað mikið síðustu árin og mun meira en í öðrum sveitarfélögum. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjur Mosfellsbæjar séu hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Rekstrargrunnur sveitarfélagsins er ekki góður og höfum við fulltrúar D-lista í minnihluta í bæjarstjórn bent ítrekað á þessi atriði undanfarin ár í umræðum um fjárhagsáætlun og einnig á að óhjákvæmilegt er að hagræða í rekstri sveitarfélagsins.
Ábendingar okkar hafa ekki fengið mikinn hljómgrunn eins og tölurnar gefa til kynna.

Hækkun á gjaldskrám
Gjaldskrár sveitarfélagsins og álögur á íbúa munu áfram hækka á næsta árum og leikskólagjöld munu hækka um 9,5% sem er langt umfram vístöluhækkun sem er 3,5%.
Fulltrúar meirihlutans hafa verið duglegir í ræðu og riti undanfarið að benda á þessar hækkanir á leikskólagjöldum séu ekki miklar að þeirra mati, auk þess sem leikskólagjöld séu með því lægsta sem þekkist í Mosfellsbæ. Það er rétt að leikskólagjöldin eru lág í Mosfellsbæ því það var stefna síðasta meirihluta D-lista og Vinstri Grænna að halda þeim lágum.
Þó að fulltrúum meirihlutans finnist þetta ekki mikil hækkun þá er það staðreynd að þessi hækkun þýðir að foreldrar leikskólabarna í Mosfellsbæ munu greiða sem nemur einum aukamánuði í leikskólagjöld á árinu 2026 miðað við líðandi ár og það munar um minna.
Ungir foreldrar í Mosfellsbæ munu finna umtalsvert fyrir þessari hækkun og það er ekki góð forgangsröðun hjá meirihlutanum að hækka gjöld á fjölskyldur svona mikið. Við fulltrúar D-lista sögðum nei við afgreiðslu málsins og lögðum fram tillögu við þessa fjárhagsáætlanagerð að þessi hækkun myndi ekki ná fram að ganga en sú tillaga var felld af fulltrúum meirihlutans

Bólgin framkvæmdaáætlun
Framkvæmdaáætlun fyrir árið 2026 er 4.160 milljónir króna. Það er mjög há upphæð, miðað við skuldsetningu og rekstrarstöðu bæjarins. Að okkar mati hefði verið eðlilegra að hagræða í rekstri, endurskoða forgangsröðun framkvæmda og hægja tímabundið á verkefnum.
Engar slíkar aðgerðir liggja fyrir í þessari fjárhagsáætlun. Engin markviss áætlun um hagræðingu, hvorki gagnvart framkvæmdum, starfsmannfjölda né launakostnaði sem hefur hækkað umfram launavísitölu.

Tryggja þarf sjálbæran rekstur
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það er margt gott í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun og við viljum öll sjá Mosfellsbæ vaxa og dafna og veita íbúum sem besta þjónustu. En forsendur þess að bærinn haldi áfram á réttri braut er að rekstur sé traustur, núverandi fjárhagsáætlun er ekki byggð á traustum grunni og er það áhyggjuefni.
Við fulltrúar D-lista viljum vinna með meirihlutanum að hagræðingu og ábyrgum lausnum og tryggja sjálbæran rekstur sveitarfélagsins og erum við tilbúin til þess hér eftir sem hingað til.

Ásgeir Sveinsson
Bæjarfulltrúi
Oddviti D-lista