Síungir karlmenn gefa innblástur, innsæi og ráð

Sævar Kristinsson og Karl Friðriksson.

Bókin „Síungir karlmenn“ eftir Mosfellingana Karl Friðriksson og Sævar Kristinsson gefur hagnýt ráð fyrir lífsgleði, virkni og vellíðan – óháð aldri.
Með bókinni vilja höfundar ögra vanabundnum viðmiðum, ýta við hugsun og opna dyr að nýjum viðhorfum og möguleikum fyrir síunga karlmenn og fólk á besta aldri.
Bókin hefur að geyma 45 hugleiðingar þar sem höfundarnir deila reynslu og innsæi sem nýtist öllum sem vilja njóta lífsins, rækta tengsl og halda áfram að vaxa. Margar hugmyndanna hafa fæðst í Mosfellsbakaríi þar sem þeir félagar hittast gjarnan og ræða við áhugaverða Mosfellinga. Einnig stunda þeir útivist, ýmist á fellin í Mosfellsbæ eða í Lágafellslaug en hvort tveggja getur verið endalaus innblástur góðra hugleiðinga.

Hentar öllum kynjum
Þó svo bókin sé stíluð á karlmenn þá, eins og stendur á bókakápu, hentar hún öllum kynjum. Rannsóknir hafa sýnt að karlmenn á öllum aldri virðast ekki eins duglegir að rækta félagslega hæfni og konur og því í meiri hættu að einangrast. Því vilja höfundar breyta.
Síungir karlmenn er innblástur fyrir lesendur til að lifa bestu árunum – því aldur er ekki hindrun, heldur tækifæri. Þarna er því um að ræða hvatningu um að fara úr viðjum vanans og brjóta upp aldursviðmið samfélagsins.

Jólagjöfin í ár
Bókin hefur fengið góðar viðtökur og náði því t.d. að vera í 5. sæti á metsölulista Pennans Eymundsson í fyrstu útgáfuvikunni. Það má því með sanni segja að hér sé komin jólagjöfin í ár.
Bókinni er þannig ætlað að vekja lesendur til umhugsunar – um sjálfa sig, um samfélagið sitt, um gildi og möguleika aldurs. Á baksíðu bókarinnar er vitnað í Gunnhildi Arnardóttur, framkvæmdastjóra Stjórnvísi, þar sem hún ritar: „Ef þetta er uppskrift að langlífi, þá tek ég tvær! Lífsgleði, forvitni og núvitund í sönnum stíl síungra karlmanna.“
En fyrst og fremst er hún skrifuð til að benda lesandanum á leiðir til að njóta lífsins.