Kötturinn Emil hvarf sporlaust í sjö ár

Helga og Gerður með köttinn Emil á milli sín.

Það var á dimmu, köldu vetrarkvöldi að kötturinn Emil hvarf sporlaust frá heimili sínu í Mosfellsbæ, aðeins tveggja ára gamall.
Heimilisfólkið og kisubróðir hans, Felix, leituðu hans logandi ljósi en allt kom fyrir ekki, Emil fannst hvergi. Langur tími leið í óvissu, þau söknuðu hans sárt og vissu ekki hvar hann var eða hvort hann væri á lífi.
Í sjö ár átti Emil viðburðaríkt líf langt frá fjölskyldunni. Mamma Emils, Helga Ólafs, gefur honum rödd með því að skrásetja sögu hans, og Gerður Steinars teiknar hrífandi og fjörlegar myndir. Hinn litríki Emil er sjálfur hispurslaus í frásögn sinni og dregur ekkert undan, líkt og segir í tilkynningu.
Kötturinn Emil sem allir vildu eiga er spennandi og hjartnæm saga fyrir börn og ketti.

Uppgötðvuðum að við erum náfrænkur
Höfundurinn Helga Ólafs er alin upp í Vesturbæ Reykjavíkur en fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ 2011. „Við keyptum gamalt hús og gerðum það upp og einfaldlega elskum að búa hér.”
Þegar bókin var kynnt í Eymundsson fyrir skömmu uppgötvaði Helga að hún og Gerður væru náfrænkur. Það atvikaðist þannig að faðir Gerðar, Steinar Tómasson, hitti móðurbróðir Helgu og þeir tóku tal saman. „Mikið er langt síðan við höfum hist og hvað dregur þig á þessa bókakynningu?” var spurt. „Við Gerður, sem höfðum átt mjög gott samstarf í marga mánuði, uppgötvum þá að við erum náfrænkur en amma mín, Sigrún, og afi hennar, Tómas Bjarni Sturlaugsson, voru systkin,“ segir Helga. „Þannig eignuðumst við frænku í hvorri annarri.“
Þetta hafi þó ekki komið þeim mikið á óvart. „Eitthvað dró okkur að hvorri annarri og samvinna okkar hefur verið einstaklega ánægjuleg og ekki síður skemmtileg,” segir Helga. „Þetta er búið að vera draumasamstarf og svo elskum við báðar ketti!”
Á myndinni eru Helga og Gerður með köttinn Emil á milli sín.