Vildi leggja mitt af mörkum
Hilda Allansdóttir er mikil útivistarkona og eina markmiðið sem hún setur sér er að stunda útiveru á hverjum degi. Hilda sem starfar sem hárgreiðslukona er dugleg að deila með fylgjendum sínum því sem hún er að bralla.
„Ég talaði um það á story hjá mér þann 1. janúar að ég ætlaði að stunda útiveru á hverjum degi og hvatti aðra til að stunda útiveru. Ég byrjaði að stunda fjallahlaup árið 2012 og hef verið að síðan ásamt annarri hreyfingu. Ég byrjaði svo á því fyrir svona þremur árum að skrifa niður þau fjöll og fell sem ég fer á,“ segir Hilda sem meðal annars endaði á að fara 136 ferðir á Esjuna árið sem hún varð 50 ára.
Efndi til söfnunar vegna stríðsins í Palestínu
„Það eru margir sem setja sér markmið um ákveðið margar ferðir á einhver fjöll, ég hef ekki gert þetta en þegar ég kláraði ferð númer 100 á Úlfarsfellið í mars þá fór ég að velta fyrir mér tilganginum með þessum ferðum. Svo verða ferðarnar 150 og svo 200. Þegar ég var komin með 250 ferðir þá kviknaði sú hugmynd að stofna til einhvers konar söfnunar vegna stríðsins í Palestínu.
Ég ákvað að gefa ákveðið framlag á hverja ferð frá 250-300 og talaði um það á mínum miðlum og hvatti þá sem vildu leggja málefninu lið að vera með.“
Gaf máltíð fyrir hverja ferð frá 250-300
Hilda hefur mikla persónulega tengingu til Palestínu, pabbi hennar er þaðan en kom til Íslands þegar hann var 22 ára gamall, hann upplifði það árið 1948 að vera barn í flóttamannabúðum. Hér kynnist hann mömmu Hildu og saman stofnuðu þau fjölskyldu. Hilda ferðaðist mikið til Palestínu sem barn og fjölskyldan bjó þar í tvígang, annars vegar í eitt ár og tvisvar sinnum í sjö mánuði.
Safnaði 388.000 kr. sem runnu til Vonarbrúar
„Ég kynnti mér vel hvað og hvernig ég vildi leggja mitt af mörkum, ég ákvað að ég vildi gefa eina máltíð fyrir hverja ferð frá 250-300 fyrir sveltandi börn og fjölskyldur á Gaza.
Ég ákvað svo að halda smá athöfn á toppnum í ferð 300 sem var 28. ágúst og hvetja vini og vandamenn til að koma. Það endaði þannig að um 50 manns fögnuðu með mér, ég bauð upp á palestínskar veitingar og Ölgerðin og Bætiefnabúllan styrktu drykki og fleira.
Ágóði söfnunarinnar fór til Vonarbrúar sem eru samtök sem eru í beinu sambandi við fjölskyldur á Gaza-svæðinu. Söfnuninn fór fram úr björtustu vonum og endaði í 388.000 kr.,“ segir Hilda að lokum og þakkar öllum sem hjálpuð henni með þetta verkefni.



