Sundabraut aftur á kortið

Haldinn var kynningarfundur Vegagerðarinnar í síðustu viku þar sem kynntar voru niðurstöður umhverfismats vegna Sundabrautar.
Markmið Sundabrautarverkefnisins er að stytta vegalengdir og bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Það á einnig að létta umferðarþunga á núverandi leiðum, tengja Vestur- og Norðurland betur við höfuðborgarsvæðið og greiða fyrir umferð flutningabíla.

„Nauðsynlegt að af þessari framkvæmd verði sem fyrst”
„Sundabrautin er mjög mikilvæg fyrir okkur í Mosfellsbæ og nauðsynlegt að af þessari framkvæmd verði sem fyrst,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Við höfum því fagnað framkvæmdinni í okkar umsögnum en jafnframt lagt áherslu á Leiruvoginn, að það verði vandlega skoðað hvaða áhrif framkvæmdin hefur á strauma og lífríki svæðisins.“

Fjöldi ökutækja úr 36.000 niður í 20.000 bíla á dag
Reiknað er með að fjöldi ökutækja um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ fari úr 36.000 niður í 20.000 bíla á dag með tilkomu Sundabrautar, samanborið við núllkost árið 2040.
Vegagerðin vonast til að hægt verði að bjóða verkið út á næsta ári. Framkvæmdir gætu þá hafist eftir tvö ár. Verktími yrði sennilega fimm ár þannig að Sundabraut gæti öll verið tilbúin árið 2032, gangi áform stjórnvalda eftir.