Best að spyrja börnin
Okkar Mosó er skemmtilegt verkefni sem hingað til hefur hvatt hinn almenna íbúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku bænum til heilla.
Í ár breyttum við meirihlutinn áherslunni í Okkar Mosó og nefndum það Krakka Mosó 2025. Það er svo mikilvægt að efla rödd barna og ungmenna og þátttöku í lýðræði. Þetta er líka í fullu samræmi við áherslurnar í Barnvænu sveitarfélagi sem Mosfellsbær er að innleiða og er á lokametrunum með. Krakka Mosó er því liður í að efla lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í bæjarfélaginu og að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfið sitt með sinni sköpunargleði og krafti.
Framkvæmd Krakka Mosó
Verkefnið var útfært í nánu samstarfi við fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig og það eru Varmárskóli, Kvíslarskóli, Lágafellsskóli og Helgafellsskóli
Til þess að svona verkefni verði að veruleika þarf mikla samvinnu á milli starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs ásamt bæjarstjóra og öðrum úr stjórnsýslunni og vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu.
Börnin og ungmennin fengu fræðslu um lýðræði og hvað felst í þátttöku í svona verkefni og eftir það fór fram hugmyndasamkeppni. Þau létu ekki sitt eftir liggja og komu fram með fullt af góðum hugmyndum sem stuðla að meiri útiveru, hreyfingu og leik í bænum okkar. Það var lagður mikill metnaður í kosningadaginn þann 20. maí 2025.
Íslenski fáninn var dreginn að hún, það voru kjörkassar á staðnum og hver skóli var með kjörstjórn og í henni voru tveir fulltrúar frá miðstigi, tveir fulltrúar frá unglingastigi auk formanns nemendaráðs. Á kjörskrá voru 1178 nemendur og 997 kusu sem er 85% kosningaþátttaka.
Skemmtileg leiktæki
Þrjár af öllum þessum hugmyndum fengu flest atkvæðin og er nú búið að framkvæma þær á þremur svæðum í bænum. Í Ævintýragarðinum er komin upp stór og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli, á Stekkjaflötinni er komin skemmtileg þrautabraut á vatni og á svæði við Rituhöfðann er komin snúningsróla og önnur leiktæki.
Við unga fólkið okkar vil ég segja takk fyrir að vera til fyrimyndar, sýna frumkvæði og sköpun og taka þátt í Krakka Mosó 2025. Með þessum skemmtilegu og góðu hugmyndum ykkar glæðið þið bæinn okkar enn meira lífi.
Framtíðin er björt, allir út að leika.
Halla Karen Kristjándóttir 
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs




