Greining er ekki lausn
Greining er eins og að setja nafn á sjúkdóm án þess að ávísa meðferð. Hún skýrir vandann en leysir hann ekki. Í skólakerfinu höfum við náð langt í að finna nöfnin, eins og ADHD og lesblindu, en alltof stutt í að skapa raunveruleg úrræði sem breyta daglegu lífi barna.
Við mælum, prófum og flokkum börn af mikilli nákvæmni og fáum sífellt ítarlegri hugtök til að lýsa erfiðleikum þeirra. En það sem vekur áhyggjur er að við virðumst oft stoppa þar. Þegar greiningin liggur fyrir, dofnar ákallið um að bregðast við í kennslustofunni.
Það er eins og meginmarkmiðið sé að nefna erfiðleikann en ekki að leysa hann. Við segjum „þetta barn er með ADHD,“ en því fylgir engin skýr leiðbeining um hvað kennarinn á að gera næst. Foreldrar standa uppi með skýrslu, kennarar með lista yfir greiningar í bekknum, en það sem vantar eru raunveruleg skref fram á við sem nýtast í daglegu starfi. Þetta er afleiðing menningar í kerfinu, þar sem fjárfest er í prófum og mælitækjum, en lausnirnar fá oft lítið rými. Við teljum að greiningin sjálf sé svarið, þegar hún ætti aðeins að vera upphafið.
Þessi nálgun hefur alvarlegar afleiðingar. Börnin sjálf finna fljótt hvort greiningin breytir einhverju í þeirra skólagöngu eða ekki. Ef ekkert gerist, ef ekkert nýtt er reynt, verður greiningin að stimpilmerki fremur en tækifæri. Hún segir barninu hvað það heitir í flokkunarkerfinu, en hún segir ekki hvernig það getur lært á eigin forsendum. Þannig er hætta á að sjálfsmynd barnsins mótist af veikleikanum einum, í stað þess að lausnir kalli fram styrkleikana.
Foreldrar standa líka oft ráðalausir eftir að fá niðurstöðu. Þau fá ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig þau geta stutt barnið heima. Hvernig hjálpum við með heimanámið? Hvernig nýtum við styrkleikana? Of oft fá þau engin svör. Kennarar eru í sömu stöðu. Þeir fá upplýsingar um greiningu en ekki tæki eða aðferðir til að nýta í kennslu. Þannig verður greiningin að byrði frekar en stuðningi, hún segir að eitthvað sé að, en ekki hvernig eigi að mæta því.
Við verðum að spyrja okkur, af hverju er þetta svona? Hvers vegna hefur greiningin sjálf hlotið meira vægi en lausnirnar? Er það vegna þess að greiningin er mælanleg og auðvelt að setja hana í skýrslu á meðan lausnir eru flóknari og krefjast sveigjanleika? Er það vegna þess að kerfin okkar eru hönnuð til að safna gögnum en síður til að aðlaga kennsluhætti? Hver sem skýringin er, þá er ljóst að jafnvægið er rangt. Greining getur verið gagnleg en hún breytir engu ein og sér. Það sem skiptir máli er hvort lausnir fylgja í kjölfarið.
Þessar lausnir ættu ekki aðeins að mæta vanda barnsins heldur byggja það upp, kalla fram styrkleika þess og kveikja nýja von um að það geti blómstrað. Þær ættu að vera lausnir sem kennarar geta gripið til strax í kennslustund og foreldrar geta notað heima til að styðja við nám barnsins. Það er í þessum lausnum sem vonin býr, ekki í orðinu sjálfu sem greiningin gefur. Við verðum að snúa þessu við. Greiningar eiga ekki að vera markmið heldur tæki. Þær eiga að vísa okkur á næstu skref, ekki vera lokapunktur. Kerfið okkar á ekki að vera framúrskarandi í að skilgreina erfiðleika barna, heldur í að veita þeim raunverulega aðstoð.
Börn læra ekki af greiningu. Þau læra af kennslu sem mætir þeim á þeirra forsendum. Og kennarar kenna ekki betur af því að fá stimpil á barnið eða greiningu á blað. Þeir kenna betur þegar þeir hafa lausnir sem virka.
Þess vegna þurfum við að leggja jafnmikla vinnu í lausnir og við leggjum í greiningar. Svarið er augljóst, lausnirnar skipta máli. Þær eru það sem breyta daglegu lífi barnsins, gera kennurum kleift að kenna og foreldrum kleift að styðja. Greining getur verið byrjunin, en án lausna er hún aðeins orð á blaði.
Sigurður Árni Reynisson
kennari í Lágafellsskóla




