Samstaða um það mikilvægasta
Ég var að lesa Líf á jörðinni okkar. Bókin kom út fyrr á þessu ári, höfundurinn, David Attenborough, er ekki nema 99 ára, kýrskýr og hvetjandi. Bókin sem ég las á undan henni, Lífið í skóginum (Walden), eftir Henry David Thoreau, kom fyrst út árið 1854 – fyrir tveimur góðum mannsöldrum. Báðar fjalla í grunninn um það sama. Mikilvægi óspilltrar náttúru fyrir allt líf á jörðinni, þar á meðal okkar mannfólksins. Og þau lífsgæði sem felast í einfaldleikanum. Við hvorki þurfum né getum haldið endalaust áfram að hlaupa hraðar og hoppa hraðar – jörðin okkar þolir ekki endalausan vöxt. Það er löngu ljóst og vel útskýrt af Attenborough. En hann er líka maður lausna og leiða og útskýrir í seinni hluta bókarinnar hvað við getum, eða öllu heldur, verðum að gera til þess að byggja aftur upp jafnvægi á jörðinni.
Við þurfum að horfa á stóru myndina og vera samstíga í að gera það sem skiptir mestu máli. Við verðum að vera tilbúin til þess að gera breytingar. Breytingar eru fyrir mörgum það versta í heimi. Hlutirnir hafa alltaf verið svona og þess vegna verða þeir að vera svona áfram. Af því bara. Flugeldar eru eitt lítið dæmi – og ég veit að ég er á hálum ís hér. Framleiðsla þeirra krefst málma, efnasalta og annarra hráefna sem eru unnin með jarðefnavinnslu sem hefur sín umhverfisáhrif. Við sprengingarnar losna svifryk, málmagnir og gastegundir út í andrúmsloftið. Við bætist ruslið sem fylgir flugeldunum, pappír, plast og málmar. Ég elska sjónarspilið og hljóðin sem fylgja flugeldum, en er tilbúinn að breyta til, finna aðra leið til að fagna tímamótum og vinna þannig með óspilltri náttúrunni, ekki á móti henni. Ég styð líka þá ákvörðun að breyta bæjarhátíð til þess að gera hana fjölskylduvænni og vinalegri, þannig bætum við samfélagið. Fögnum breytingum til hins betra.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. ágúst 2025