Að áliðnu sumri
Ég hef búið í Mosfellsbæ allar götur síðan í ársbyrjun 1983 og alltaf í sama húsinu. Hér hef ég átt góð ár þar sem börnin okkar hjóna ólust upp og við notið vináttu og velvildar ótalmargra góðra granna gegnum árin. Já, þar sem okkur líður vel þar er alltaf gott að búa.
Á þessum rúmlega 40 árum hefur ótalmargt breyst. Íbúum sveitafélagsins hefur fjölgað mjög mikið eða úr 3.000 í nálægt 15.000. Mosfellssveitin eins og sveitarfélagið var nefnt lengi vel er kaupstaður frá 1987 og orðið eitt af fjölmennustu sveitafélögum landsins. Og Mosfellsbærinn er á næstu misserum að vaxa saman við Reykjavík. Áður fyrr var Mosfellsssveitin töluvert langt utan við Reykjavík en allt er í heiminum hverfult, þ.e. breytingum háð.
Nú er ég kominn á áttræðisaldur og eitt af tómstundamálum mínum er að rölta í rólegheitum niður að Leirvogi, virða fyrir mér fjölbreytt fuglalífið, hestana á beit og stundum lendi ég á tali við annað fólk, jafnvel golfarana sem iðka sína íþrótt guðslangan daginn sér til ánægju. Oft verður útiveran tilefni til ýmissa hugrenninga sem ritaðar eru niður þá heim er komið.
Það hefur lengi verið markmið mitt á gönguferðum mínum að ganga út á Blikastaðanesið. Nú er svo komið að mér finnst að bekkirnir á þessari leið hafi verið mátt vera fleiri og áfangarnir því full langir. Það þarf að huga betur að okkur sem eldri erum sem finnst gott að tylla sér um stund.
Og stígarnir sem voru lagðir undir lok síðustu aldar eru margir hverjir börn síns tíma, lagðir með miklum hug en kannski af vanefnum. Ekki var vandað nóg til þeirra fyrstu, hvorki undirlags né endalausrar endingar. Víða eru þeir orðnir býsna lélegir, sprungnir og skörðóttir enda vinna náttúruöflin vel á að kvarna úr þeim og gera lakari með hverju árinu sem líður. Sjá má að síðari kynslóð þessara stíga var mun betur undirbúni auk þess sem þeir eru breiðari en þeir eldri. Á þessu þyrfti að taka, bæta og laga það sem þörfin er fyrir á vegum bæjarins og sem mikið er notað. Áður fyrr voru þeir fáfarnir en á góðviðrisdegi eru þeir stundum yfirfullir af hjólreiðafólki, göngufólki og hlaupandi íþróttafólki að þjálfa sig fyrir næstu hlaup. Nauðsyn er að aðgreina betur.
Og Fuglaskoðunarhúsið við Langatanga hefur mátt sjá fífil sinn fegurri. Einhverjir illa uppaldir götustrákar hafa gert að gamni að skemma það eins og þá lystir. Á þessu þarf að taka sem væri okkur öllum fremur til sóma en ekki til vansa. Má nefna að síðasta árbók Ferðafélags Íslands fyrir árið 2025 er helguð fuglum og fuglaskoðunarstöðum um allt Ísland og er Leirvogurinn talinn vera einn allra besti fuglaskoðunarstaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þá er einstaklega gaman að ganga um stíga bæjarins og skoða trjágróðurinn sem er víða orðinn mjög þroskaður og hávaxinn. Garðarnir eru misjafnir, langflestir eru mjög vel hirtir þar sem metnaður er mikill að rækta allt sem best. Er unun að skoða þessa garða sem eru eigendum til mikils sóma. Má t.d. sjá í einum garði eik sem er líklega ein sjaldgæfasta trjátegund sem þrífst á Íslandi. En miður er að rekast á nokkra garða sem illa hefur verið haldið við jafnvel í áratugi.
Það hefur reynst vel að búa í Mosfellsbæ. Við getum öll í sameiningu gert bæinn okkar enn betri.
Guðjón Jensson
Eldri borgari, tómstundablaðamaður og leiðsögumaður
Arnartangi43@gmail.com