Tækifæri til eflingar atvinnumála í Mosfellsbæ
Mikil uppbygging atvinnusvæða á sér nú stað í Mosfellsbæ og mun sú uppbygging halda áfram á næstu árum.
Tækifæri eru til þess að efla atvinnulíf og fjölga fyrirtækjum í Mosfellsbæ samhliða þessari uppbyggingu auk þess sem tækifæri eru fyrir hendi hvað varðar fjölbreytta nýsköpun.
Verið er að leggja lokahönd á atvinnustefnu Mosfellsbæjar og færi vel á því að mati okkar bæjarfulltrúa D-lista að öflug atvinnu- og nýsköpunarnefnd innleiði og fylgi eftir atvinnustefnunni.
Nefndin gæti einnig verið í fararbroddi við kynningu Mosfellsbæjar sem spennandi kost fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki í samstarfi við þá landeigendur sem koma að uppbyggingu nýrra atvinnusvæða í bænum.
Öflugt kynningar- og markaðsstarf er nauðsynlegt
Á næstu árum er mikilvægt að leggja áherslu á skipulagningu á hagrænum hvötum, markaðssetningu, ímynd og sérstöðu bæjarins sem ákjósanlegan valkost – bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur til að búa í, en einnig fyrir fyrirtæki að stunda sinn rekstur.
Skipulagning á hagrænum hvötum
Skoða þarf möguleika á hagrænum hvötum sem hvetja fyrirtæki til þess að flytja í bæinn, s.s. lægri gatnagerðargjöld og/eða aðrar tímabundnar ívilnanir eða fríðindi. Það eru fordæmi fyrir slíku í Mosfellsbæ frá fyrri tíð og öðrum sveitarfélögum sem eru að bjóða slíkar lausnir í dag.
Einnig þarf að skoða að bjóða upp á hvetjandi umhverfi fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpun, t.d. með samstarfi við háskóla og stofnanir. Að leggja áherslu á græna uppbyggingu og umhverfisvæna starfsemi sem gæti laðað að fyrirtæki sem starfa að nýsköpun í sjálfbærni, hreinni orku, grænum lausnum og hringrásarhagkerfi. Bærinn gæti þannig orðið fyrirmyndarbær í vistvænni atvinnuuppbyggingu.
Leggja áherslu á markaðssetningu og ímynd Mosfellsbæjar sem vel staðsett sveitarfélag fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi
Kynna þarf Mosfellsbæ sem heilsueflandi, náttúruvænan og fjölskylduvænan stað fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Ná beint til fyrirtækja með kynningum, fundum eða samstarfi við atvinnuþróunarfélög og vera með gott aðgengi að upplýsingum um lausar lóðir, ferli umsókna og þjónustu sveitarfélagsins.
Móta sérhæfingu og sérstöðu Mosfellsbæjar og kynna hana
Skapa þarf sérstöðu, t.d. með því að laða að græna nýsköpun, heilsutengd fyrirtæki eða list- og handverksmiðstöðvar svo eitthvað sé nefnt. Mosfellsbær hefur fjölbreytta og fallega náttúru, útivistarsvæði og sögu sem hægt er að nýta til að þróa ferðaþjónustu, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.
Ljóst er að með aukinni atvinnuppbyggingu getur bærinn laðað að veitingastaði, gistingu, afþreyingu og heilsutengda þjónustu.
Leggja á áherslu á fljóta, góða og skilvirka stjórnsýslu
Mikilvægt er að veita lóðaeigendum sem og öðrum góða þjónustu með skjótum og skilvirkum svörum um lóðir, leyfi og reglur. Þannig gætum við náð upp ímynd sem lausnamiðað og sveigjanlegt sveitarfélag gagnvart atvinnurekstri.
Mun Mosfellsbær sitja eftir í samkeppninni?
Mikil samkeppni ríkir milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í að laða til sín fyrirtæki. Sveitarfélögin eru flest að leggja mikla vinnu og áherslu á að kynna hvað þau hafa upp á að bjóða en það virðist ekki vera áhersla Mosfellsbæjar undir stjórn núverandi meirihluta.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar fram tillögu um að leggja niður atvinnu- og nýsköpunarnefnd, nefnd sem þessi meirihluti stofnaði í upphafi kjörtímabilsins árið 2022.
Sem viðbragð við tillögu meirihlutans lögðu fulltrúar D- og L-lista í bæjarstjórn fram tillögu um að það yrði ekki gert heldur blásið til sóknar í að efla atvinnumálin í Mosfellsbæ undir forystu atvinnu- og nýsköpunarnefndar.
Tillagan var því miður felld þar sem þar sem nefndin þótti ekki passa lengur inn í nýtt skipurit meirihlutans. Þetta er að okkar mati slæm ákvörðun með vísan í núverandi og fyrirhugaða atvinnuuppbygginu í Mosfellsbæ. Hagsmunir Mosfellsbæjar eru í húfi og þeir eru mun mikilvægari en hvað mögulega passar inn í skipurit meirihlutans.
Ásgeir Sveinsson, Jana Katrín Knútsdóttir, Rúnar Bragi Guðlaugsson og Helga Jóhannesdóttir
bæjarfulltrúar D-lista