Fækkun nefnda og breytt launakjör
Þann 25. júní síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn að aftengja laun bæjarfulltrúa við þingfararkaup og fækka áheyrnarfulltrúum í nefndum bæjarins.
Þá var samþykkt að laun bæjarstjóra fylgi launahækkunum á vinnumarkaði í stað launavísitölu. Einnig samþykkti bæjarstjórn að fækka fastanefndum bæjarins um þrjár.
Ákvörðunin um að fækka fastanefndum á sér rætur í stjórnsýsluúttekt sem meirihluti B, S og C lista lét gera. Í september 2023 tók gildi nýtt skipurit fyrir stjórnsýsluna sem fól í sér breytingar á fjölda og verkefnum sviða og skrifstofa. Í framhaldi af þeim breytingum þótti eðlilegt að skoða nefndaskipan sveitarfélagsins með það fyrir augum að auka skilvirkni, samfellu, yfirsýn og hagræðingu í stjórnsýslunni. Með þessu nýja fyrirkomulagi starfar ein nefnd með hverju sviði.
Launakjör
Eins og fólk kannski man þá voru gerðir samningar í fyrra sem fólu í sér hóflegar launahækkanir sem lið í sameiginlegu átaki til að ná niðurlögum verðbólgu og að vinna að lækkun vaxta. Almennar launahækkanir í þessum samningum, þ.á.m. samningum við starfsfólk Mosfellsbæjar, voru 3,5%. Meirihluti B, S og C lista vildi taka þátt í þessari aðgerð og lagði því til að árleg launahækkun yrði aftengd þingfararkaupi sem hefði þýtt hækkun um 5,6%. Þess í stað munu launin hækka um 3,5%
eins og samningar starfsmanna Mosfellsbæjar.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri óskaði sjálf eftir því að laun hennar skv. ráðningarsamningi yrðu aftengd launavísitölu við launaákvörðun 1. júlí. Þessi ósk þýðir að laun bæjarstjóra munu ekki hækka um 8,2% í samræmi við vísitölu heldur um 3,5% í samræmi við samninga á opinbera og almenna markaðnum. Vert er að geta þess að þetta er í annað sinn á kjörtímabilinu sem bæjarstjórinn óskar eftir slíkri aftengingu við vísitöluhækkun.
Fækkun nefnda
Á umhverfissviði verður ein nefnd, umhverfis- og skipulagsnefnd. Með því fyrirkomulagi teljum við að yfirsýn verði enn betri og að það sé kostur að í allri umræðu um skipulagsmál verði einnig fjallað um umhverfis- og loftslagsmálin. Þannig verði tryggt að þau mikilvægu málefni verði alls ekki út undan eða gleymist í umræðunni.
Á menningar-, íþrótta- lýðheilsusviði verður einnig ein nefnd að störfum. Markmiðið með stofnun þessa nýja sviðs var einmitt að styrkja stjórnun og yfirsýn í málaflokkunum en sviðið heldur utan um stærsta hlut þess starfs sveitarfélagsins sem snýr að frítíma íbúanna. Með því að skipa málefnum sviðsins í eina fagnefnd teljum við að yfirsýn og skilvirkni verði betri og möguleikar á samlegðaráhrifum í starfi sviðsins aukist. Lýðræðismálin sem áður voru í menningar- og lýðræðisnefnd færast undir bæjarráð.
Atvinnu- og nýsköpunarnefndin verður lögð niður en að sjálfsögðu verður unnið ötullega í að fylgja eftir aðgerðaráætlun atvinnustefnunnar. Nefndin hefur skilað af sér miklu og góðu starfi í formi fyrstu atvinnustefnu Mosfellsbæjar. Nú þarf að einbeita sér að því að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem koma fram í stefnunni. Sú vinna verður á ábyrgð starfsfólks skrifstofu umbóta og þróunar. Þau málefni sem þarfnast umfjöllunar í pólitíkinni fara inn til bæjarráðs enda við búið að þau muni fela í sér fjármálalegar skuldbindingar.
Breyting verður á skipan áheyrnarfulltrúa meirihlutans í nefndum og fallið er frá skipan þeirra til loka kjörtímabilsins.
Sparnaður
Ofangreindar nefndabreytingar eru allar þáttur í að straumlínulaga starf innan stjórnsýslunnar og meirihlutinn telur að þær séu til bóta. Hagræðing sem af þeim stafar er síðan kærkomin inn í rekstur bæjarins en á ársgrundvelli verður hún 19-22 milljónir. Aftenging launakjara kjörinna fulltrúa við hækkun þingfararkaups og breyting kjara bæjarstjóra teljum við vera ábyrga leið til að sýna samfélagslega ábyrgð í baráttunni við verðbólguna. Sú breyting þýðir 3,4 milljóna sparnað fram að áramótum.
Þá hefur nú þegar verið hagrætt um 200 milljónir í rekstri bæjarins á þessu ári, til að mæta meðal annars kjarasamningshækkunum.
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar