Okkar stelpur á EM

Við Mosfellingar eigum frábæra fulltrúa í landsliði Íslands á lokakeppni EM í fótbolta í Sviss. Cecilía Rán Rúnarsdóttir, flutti 7 ára í Mosfellsbæ og lék með Aftureldingu upp yngri flokkana og í meistaraflokki áður hún færði sig yfir í Fylki og þaðan í atvinnumennsku erlendis. Cecilía hefur átt frábært tímabil í marki Inter Milan á Ítalíu og var eftir tímabilið valin besti markvörður deildarinnar. Hafrún Rakel Halldórsdóttir ólst upp í Mosfellsbænum og lék lengi með Aftureldingu þangað til hún skipti yfir í Breiðablik og þaðan í Bröndby í Danmörku, eitt af allra bestu liðum Danmerkur. Hafrún spilar á miðjunni og er í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins sem hrósa henni fyrir sterkt hugarfar og sigurvilja. Það verður gaman að fylgjast með þeim Cecilíu og Hafrúnu í Sviss. Þær eru frábærar fyrirmyndir fyrir ungar fótboltastelpur í Mosfellsbæ og hafa sýnt að með metnaði, dugnaði og þrautseigju er hægt að láta fótboltadrauma rætast.

Jákvæð sálfræði er aðferðafræði sem ég er persónulega mjög hrifinn af. Það að vinna með styrkleika sína, rækta þá og byggja á þeim er alveg örugglega eitthvað sem bæði Hafrún og Cecilía gera reglulega. Birna Kristín Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Aftureldingar, sem nýlega lauk námi í jákvæðri sálfræði hefur verið að vinna með fótboltastelpum og –strákum undanfarið í því að efla andlegan styrk þeirra og styrkja jákvæða menningu í liðum þeirra. Hún bendir á að rannsóknir sýna að einstaklingar sem þekkja styrkleika sína og nýta þá daglega eru mun líklegri til þess að vera virkir í starfi og daglegu lífi og eru framtakssamari, hamingjusamari og heilbrigðari. Ég hlakka líka til að fylgjast með Birnu í framtíðinni, það er ótrúlega verðmætt fyrir okkur sem samfélag að öflugt fólk vinni í andlega þættinum með íþróttafólkinu okkar – það eflir bæði þau sem einstaklinga og alla þá hópa sem þau tilheyra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. júlí 2025