Sérkennileg staða hjá FaMos
Helstu fregnir af Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni eru þær að nýverið var haldinn fjölmennur aðalfundur, hinn 15. febrúar 2016, í Hlégarði. Fyrri stjórn var samhljóða endurkjörin. Um þetta má sjá nánar á vefsíðu félagsins www.famos.is.
Lög félagsins endurskoðuð
Lög félagsins voru endurskoðuð fyrir aðalfundinn, eftir að stjórn FaMos og sérskipuð laganefnd höfðu komið fram með ýmsar tillögur um lagfæringar á lögum félagsins. Nokkur umræða varð um lagabreytingarnar en að öðru leyti gekk fundurinn vel og óhikað fyrir sig, undir góðri fundarstjórn Magnúsar Sigsteinssonar. Eftir fyrsta stjórnarfund nýkjörinnar stjórnar varð skipting verka innan stjórnarinnar sú sama og verið hafði 2015. Mikill og góður rómur var gerður að glæsilegu örþorrablótsmeðlæti með kaffinu sem var í boði félagsins. Kaffinefnd félagsins undir forystu Elísabetar Kristjánsdóttur, matreiðslukennara, fékk mikið og verðskuldað lófaklapp fyrir sinn þátt í vel heppnuðum aðalfundi.
Skemmtiatriði
Meðan aðalfundargestir gæddu sér á þorrablótsréttum kaffinefndar, kom Pétur Bjarnason, fyrrum skólastjóri í Varmárskóla og síðar framkvæmdastjóri SÍBS, mjög á óvart, með skemmtilegum og fróðlegum fyrirlestri um hið einstaka og skemmtilega hljóðfæri „harmónikkuna“. Hann mætti með einar fjórar mismunandi stórar harmónikkur úr safni sínu og gaf fundargestum hljóðdæmi frá hverri um sig ásamt því að fá um 80 fundargesti fundarins til að taka hressilega undir með sér. Einstaklega skemmtileg stemning og almenn ánægja með framlag Péturs.
Sérkennileg staða
Á fyrsta stjórnarfundi nýkjörinnar stjórnar FaMos, gerði formaður stjórnar FaMos, Harald S. Holsvik, grein fyrir þeirri staðreynd að af 1362 einstaklingum, fæddum fyrir 31.12. 1956, þ.e. 60 ára og eldri, eru ekki nema um 34% í félaginu. En 2/3 hlutar íbúa í póstnúmerunum 270. 271 og 276, virðast ekki hafa gert sér grein fyrir ágæti þess að gerast félagar. En ekkert er auðveldara, t.d. með því að koma við hjá Félagsstarfi eldri borgara að Eirhömrum. Þar liggja frammi umsóknareyðublöð um félagsaðild ásamt því að unnt er að afrita slík umsóknareyðublöð af vefsíðu félagsins www.famos.is og senda upplýsingarnar á netfangið famos@famos.is ef fólk hefur tölvu til umráða. Svo einfalt er það. En hverjir eru þá kostir þess að vera skráður félagi í FaMos? Það er góð spurning.
Helstu viðfangsefni FaMos
1. Félagið stendur fyrir ýmis konar menningar- og skemmtistarfsemi um vetrarmánuðina ásamt því að ljúka vetrarstarfinu með dagsferð sem kallast „Menningarkvöld um miðjan dag“. Undanfarin misseri hafa verið sögunámskeið á vegum nefndarinnar og þá gjarnan farið í eins eða tveggja daga ferð um viðeigandi söguslóðir. Á vegum félagsins er einnig starfandi „Leshringur“ sem tekur ýmsar bókmenntir fyrir og greinir inntak þeirra „niður í kjölinn“, stundum í sameiningu með höfundum sem koma stundum og lesa upp með hópnum í góðri samvinnu með starfsfólki Bókasafnsins í Mosfellsbæ.
2. Félagið samræmir íþróttaiðkun félagsmanna. Þar má nefna; vatnsleikfimi, boccia, ringó og dansleikfimi. Mismunandi oft í viku hverri um vetrartímann. Ýmis íþróttamót eru haldin allt árið og hefur lið FaMos oft unnið til verðlauna undanfarin ár.
3. Einnig má nefna; Línudans, gönguhóp, golf-pútt, olíumálun, gleriðju, hannyrðir, módelsmíði, útskurð, spænskunám og fl. ótalið. Allt í góðu samstarfi við Félagsstarfið að Eirhömrum. Þeir sem hafa aðgang að tölvu, fá, um vetrartímann, vikulegar tilkynningar um það sem efst er á baugi í félagsstarfinu.
4. Á vegum félagsins starfar einnig sérstök Ferðanefnd sem skipuleggur og samræmir skemmtilegar ferðir á vegum félagsins innanlands og erlendis eftir atvikum.
5. Félagsskírteini FaMos, gildir sem afsláttarkort um land allt, því félagið er aðili að Landssambandi eldri bogara, LEB en með félagsskírteini FaMos, virkjar félagsmaður aðild að ýmsum afsláttarsamningum og sérstakri afsláttarbók sem gefin er út af LEB og er einnig tiltæk á Internetinu, fyrir þá sem hafa tölvu við höndina. Algengur afsláttur af vöru og þjónustu getur verið á bilinu 10-15% eftir viðkomandi viðskiptum. Fyrirtækin í Mosfellsbæ hafa stutt og styrkt félagsstarfið vel og dyggilega og verið góður bakhjarl við félagið og starfsemi þess. Það er því ósk mín að allir félagar og þeirra fjölskyldur, þiggi þjónustu hér í bænum ef hún er til staðar, áður en leitað er annað.
6. Fyrir þá sem hafa unun af að syngja, þá er starfandi kór eldri borgara, Vorboðarnir, formaður er Úlfhildur Geirsdóttir. Í Vorboðunum eru um 60 manns, veitt er kennsla í raddbeitingu ásamt því er um mjög öflugt félagsstarf að ræða og skemmtilegir viðburðir, stundum oft í mánuði. Bara fjör.
Verið öll velkomin í hópinn til okkar, www.famos.is og famos@famos.is
Harald S. Holsvik, formaður FaMos
Greinin birtist í Mosfellingi 10. mars 2016