Um safnaðarstarf
Hvað skyldi það vera sem dregur fólk til kirkjusóknar og til þátttöku í starfi safnaðar?
Sjálfsagt er margt svarið við því. Trúrækni vafalítið meginástæðan en þarf þó ekki endilega að vera. A.m.k. get ég ekki hælt mér af því að svo hafi verið um mig. Ég hóf að fylgja eiginkonu minni til kirkju þegar við fluttum hingað fyrir meira en fjörtíu árum.
Að sækja kirkjulegar athafnir er á vissan hátt hvíld frá daglegu amstri. Ámóta og margt sem nú er kynnt til þess að hvíla hugann og öðlast innri ró. Að koma til kirkju stendur okkur öllum fyrirhafnarlítið til boða, að jafnaði vikulega og oftar um hátíðar.
Ekki hefur mér síst reynst tónlistin hluti af hvíldinni. Tónlistin sem um aldir hefur orðið til á vegum kirkjunnar til dýpkunar guðsþjónustunnar og hefur óvíða verið fegurri samin.
Sú staðreynd virðist um margt vera orðin gleymd að meðal allra þjóða hafa orðið til trúarbrögð, er mótað hafa siði og venjur sem eru mikill grunnur þjóðlífs og siðmenningar. Ekki geng ég þess dulinn að ég ber virðingu fyrir siðum okkar Íslendinga sem kirkjan hefur mótað. Fólki er almennt mikilvægt að leita til kirkjunnar um skírn, fermingu, hjónavígslur og ekki síst útfarir. Það fyrst talda eru gleðistundir og hjónavígsla er elskendum ógleymnanleg. Hið síðast talda er þeim nánustu afar mikilvæg stund í sorg sinni. Þessir siðir, sem kirkjan svo vel varðveitir og við leitum til á gleði- og sorgarstundum, eru ekki aðeins mér og þeim sem taka þátt í safnaðarstarfi mikilvægir. Þeir eru að vissu leyti grundvöllur sem við byggjum á eins og allar þjóðir enda þótt sinn sé siðurinn í landi hverju.
Fjölbreytni má vera hin æskilegasta í kirkjulegu starfi svo lengi sem haldið er við siðum er vel hafa reynst. Að hlaupa eftir tíðaranda einnar kynslóðar getur leitt athafnir frá meginefni því er hverjum manni má vera undirstaða til vellíðanar og festu í lífinu. Allar tískusveiflur líða undir lok og þykja gjarna hjákátlegar þegar frá líður.
Það kom fram hér í síðasta eintaki þessa ágæta blaðs, Mosfellings, að vissulega getur mannfólkið misstigið sig í safnaðarstarfi sem og í öðru mannlegu starfi.
Meginatriðið er að draga fólk ekki í dilka hvernig svo sem það er af guði gert, heldur virða alla að jöfnu. Að gefa sem flestum kost á að njóta safnaðarstarfs og styðja við safnaðarbörn til þess.
Áframhald lífsins byggist á voninni um að „bráðum komi betri tíð með blóm í haga“. Með það að leiðarljósi og að allir menn, lærðir sem leikir, leitist við að bæta sig, afsaka og fyrirgefa mistök ef orðið hafa, vil ég hvetja fólk til þess að íhuga með sér að leita í ríkari mæli að friðarstundum í samfélagi kirkju sinnar.
Að endingu er ekki úr vegi að ýta við sem flestum til þess að mæta á aðalsafnaðarfund kirkjunnar, sem verður þann 8. maí n.k. kl. 20 í safnaðarheimilinu.
Aðalsafnaðarfundur er öllum opinn en þar er kosið í sóknarnefnd og markar fundurinn á vissan hátt línur í starfi næsta árs.
Safnaðarheimilið er að Þverholti 3, gengið inn á austugafli hússins sem snýr að þar sem nú er veitingastaðurinn Bankinn en var áður útibú Arionbanka. Lyfta er upp í salinn á þriðju hæð.
Már Karlsson