Hef væntingar um að þetta muni skila sér
Þann 10. maí 2023 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023-2027, sem gengur undir nafninu Gott að eldast. Markmið verkefnisins er m.a. að finna góðar lausnir til að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu og stórbæta aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.
Guðleif Birna Leifsdóttir félags- og tengiráðgjafi heldur utan verkefnið fyrir hönd bæjarins. Hún segir að lögð verði sérstök áhersla á virkni og vellíðan eldra fólks til þess að draga úr áhættu á félagslegri einangrun og einmanaleika.
Guðleif Birna er fædd á Sauðárkróki 22. febrúar 1974. Foreldrar hennar eru Kristín Bára Ólafsdóttir og Leifur Hreinn Þórarinsson bændur í Keldudal í Skagafirði. Leifur lést árið 2006.
Systkini Guðleifar eru Ólöf Elfa f. 1960 d. 2019, Stefanía Hjördís f. 1965, Þórarinn f. 1966, Kristbjörg f. 1969 og Álfhildur f. 1977.
Þessi blanda hafði mótandi áhrif
„Ég er alin upp í Keldudal í Skagafirði, á æskuheimili mínu var ansi mannmargt því auk okkar systkinanna tóku foreldrar mínir að sér fósturbörn í mörg ár. Maður ólst upp við hefðbundin sveitastörf en hjá okkur var blandað bú, hestar, kýr og kindur. Foreldrar mínir voru afburða bændur og ræktun þeirra bæði í hrossarækt og sauðfjárrækt landskunn.
Æskuárin í Skagafirði voru hamingjurík, það var alltaf mikið um að vera og mikill gestagangur en alltaf tími fyrir okkur börnin. Foreldrar mínir lögðu áherslu á seiglu, metnað og sjálfstæði, í bland við mikinn kærleika og hlýju, þessi blanda hefur haft mótandi áhrif á mig.
Skagafjörðurinn er einstakur og bjarta vornóttin þar er engu lík.“
Skólagangan farsæl í alla staði
„Fyrstu sjö árin í grunnskóla var ég í litlum sveitaskóla í Hegranesi en lauk svo grunnskóla frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks. Það voru töluverð viðbrigði að koma úr litlum skóla þar sem við vorum þrjú yfir í það að verða 60 manna árgangur. Skólagangan var farsæl í alla staði og ég eignaðist stóran vinahóp og sú vinátta hefur haldist óslitin síðan.
Á sumrin tók ég þátt í búskapnum heima og aðstoðaði við uppeldi fósturbarnanna, þessi góði grunnur hefur fylgt mér og hefur eflaust haft áhrif á starfsval mitt til framtíðar.
Þegar unglingsárin færðust yfir þá tóku við nokkur ár af sveitaballastemningu. Við vinkonurnar létum ekki böllin hjá Sálinni, SSSól eða Stjórninni fram hjá okkur fara. Þetta voru sannarlega skemmtilegir tímar segir,“ Guðleif og brosir.
Kom heim reynslunni ríkari
Guðleif lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1994. Hún tók sér hlé frá námi þegar hún var 18 ára og fór þá í heimsreisu. Hún byrjaði hjá Hjördísi systur sinni sem þá var stödd í Guatemala. Þær ferðuðust um Mið- og Suður-Ameríku í fimm mánuði. Guðleif segir að þetta hafi verið algjört ævintýri og að hún hafi komið heim reynslunni ríkari.
„Eftir stúdentspróf fór ég með Eysteini Leifssyni kærastanum mínum til Þýskalands, þar vorum við í nokkra mánuði og störfuðum við hestamennsku. Þegar við komum aftur heim þá settumst við að í Reykjavík og ég hóf nám við Háskóla Íslands í félagsráðgjöf. Við fluttum svo í Mosfellsbæ árið 1998.“
Ógleymanleg veisla af skagfirskum sið
„Ég kynntist Eysteini þegar hann kom í Skagafjörðinn til að nema búfræði og hestamennsku á Hólum í Hjaltadal 1993. Hann flutti 15 ára í Mosfellsbæ frá Stykkishólmi með foreldrum sínum. Hann hefur alla tíð starfað við hestamennsku. Við eigum þrjú börn, Leif Inga f. 1999, Dag f. 2003 og Kristínu Maríu f. 2007. Við giftum okkur 1998, í þreföldu systrabrúðkaupi. Þetta var ógleymanleg veisla að skagfirskum sið, með söng Álftagerðisbræðra og skagfiskri sveiflu fram eftir nóttu.
Það hefur verið frábært að ala upp börnin hér í Mosfellsbæ, þau hafa haft góða kennara, verið í íþróttum hjá Aftureldingu og hafa öll starfað hér í bænum. Við fjölskyldan njótum þess að vera saman og höfum lagt mikið upp úr því að ferðast. Við hjónin komum bæði úr stórum systkinahópum og samvera og ferðalög stórfjölskyldunnar er í algjöru uppáhaldi.
Áhugamál okkar tengist hestamennsku og nú síðustu ár að rækta hross. Ég hef sennilega fengið þessa ræktunardellu frá foreldrum mínum,“ segir Guðleif með bros á vör.
„Ég elska líka að vinna í garðinum mínum og stefnan er að fá sér gróðurhús og svo hef ég frá því ég man eftir mér verið með veiðidellu.“
Þakklát fyrir reynsluna
Meðfram námi í Háskóla Íslands var Guðleif aðstoðarmaður kennara í félagsráðgjöf og svo leysti hún félagsmálastjóra í Skagafirði af um tíma. Eftir að hún lauk námi þá hóf hún störf hjá Reykjavíkurborg, á þjónustumiðstöð í Grafarvogi. Byrjaði í barnavernd en færði sig svo yfir í öldrunarmálin.
„Ég skipti svo um kúrs og starfaði í rúm 12 ár sem ráðgjafi í starfsendurhæfingu hjá VIRK og sinnti þar háskólamenntuðum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu sem voru í endurhæfingu. Á báðum þessum vinnustöðum átti ég frábæra tíma og farsælt starf og ég er þakklát fyrir reynsluna og fyrir allt það fólk sem ég hef unnið með í gegnum árin.“
Gott að eldast
„Þegar mér bauðst starf hjá Mosfellsbæ við að halda utan um verkefnið Gott að eldast þá ákvað ég að slá til og sé alls ekki eftir því en ég hóf störf í mars 2024. Þetta er nýtt starf í mótun sem samþykkt var af Alþingi með tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023-2027. Mosfellsbær ásamt Kjalarnesi og Kjós sem eitt svæði var valið í verkefnið.
Markmið verkefnisins er m.a að finna góðar leiðir til að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og sveitarfélögin hins vegar. Áherslan er að stuðla að heilbrigðri öldrun og bættu aðgengi að ráðgjöf og upplýsingum fyrir eldra fólk. Einnig verður unnið gegn einmanaleika og félagslegri einangrun og farið í að finna leiðir til að auka virkni og vellíðan íbúa.“
Starfið er fjölbreytt og gefandi
Guðleif er staðsett á velferðarsviði Mosfellsbæjar, hún býður upp á ráðgjafaviðtöl þar og í Brúarlandi og eins kemur hún í heimahús sé þess óskað. Allar upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Mosfellsbæjar, mos.is
„Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að koma að þessu nýja verkefni, starfið er bæði fjölbreytt og gefandi. Ég hef miklar væntingar til þess að það muni skila sér í bættri þjónustu fyrir eldra fólk þannig að það geti notið efri áranna eftir vilja og getu.
Það er og verður sannarlega gott að eldast í Mosfellsbæ,“ segir Guðleif Birna og brosir er við kveðjumst.