Með djörfung og dug – Mannkostamenntun í FMOS
Í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ starfar samhentur hópur fólks að því markmiði að skapa lærdómssamfélag þar sem nemendur vaxa og þroskast jafnt sem námsmenn og manneskjur.
Hjarta námsins er því ekki síður lærdómsferlið en lokaafurðin en FMOS er verkefnamiðaður leiðsagnarnámsskóli og leggur áherslu á framfarir í námi og vaxtarhugarfar. Við erum sífellt að leita leiða til að gera námið í skólanum öflugra og í því augnamiði er hafin þróunarvinna á innleiðingu svokallaðrar mannkostamenntunnar (character education). Hugmyndafræðin sækir í brunn dygðasiðfræðinnar en rætur hennar má rekja allt aftur til gríska heimspekingsins Aristótelesar.
Í stuttu máli er kjarni mannkostamenntunar sá að nám þurfi að efla persónulegan og siðferðislegan þroska nemenda ekki síður en hæfni þeirra í hefðbundnum námsgreinum. Farsæld er því miðlægt hugtak í þessum fræðum – með því að þroska mannkosti á borð við hugrekki og virðingu erum við að lifa til góðs, bæði fyrir okkur sjálf og annað fólk.
Lengi verið í farvatninu
Mannkostamenntunin hefur verið okkur í FMOS hugleikin um nokkurt skeið og í raun hófst vinnan við að innleiða hana í skólastarfið og skólabraginn fyrir mörgum árum.
Ferlið hófst með því að kennarar og stjórnendur sóttu alþjóðlegar ráðstefnur og heimsóttu erlenda skóla til að kynna sér nýjustu hugmyndir bandaríska fræðimannsins Charles Fadel, svokallað „Four-Dimensional Education“-líkan, sem sameinar þekkingu, hæfni og mannkostamenntun undir regnhlíf metacognition – eða hæfni til að hugsa um eigin hugsun.
Æ síðan hafa þessar hugmyndir litað skólastarfið og kveiktu neistann að því þróunarstarfi sem nú er hafið með aðkomu alls skólasamfélagsins.
Starfendarannsókn og stefnumótun
Á síðasta skólaári lögðu fjórir kennarar með ólíkan bakgrunn og sérhæfingu í leiðangur til að dýpka þekkingu sína og skilning á þessum fræðum.
Kennararnir skráðu sig í diplómanám í mannskostamenntun og fóru af stað með sameiginlega starfendarannsókn þar sem fjórar dygðir voru í brennidepli; hugrekki (siðferðisleg dygð), seigla (framkvæmdadygð), forvitni (vitsmunaleg dygð) og kurteisi/virðing (borgaraleg dygð). Sjónum var beint að hverri dygð fyrir sig í tvær til þrjár vikur, þar sem áherslan var bæði á að læra af fyrirmyndum (character caught) og vinnu með dygðina í skipulagðri kennslu í gegnum verkefni af ýmsu tagi (character taught).
Í framhaldinu voru hönnuð afar falleg veggspjöld fyrir hverja dygð sem nú skreyta veggi skólans. Hugmyndin var að með því að gera dygðirnar sýnilegar í skólaumhverfinu og í kennslunni sjálfri, yrði mannkostamenntunin hluti af daglegu lífi nemenda. Hvort sem þeir væru að ræða hugrekki í bókmenntum eða æfa forvitni í náttúruvísindum myndu þeir upplifa dygðirnar sem hluta af menntuninni, læra að þekkja þær og efla hugsun sína og meðvitund um þær.
Nú á haustdögum var svo blásið til þróunarvinnudags helguðum mannkostamenntun þar sem allt starfsfólk skólans kom að borðinu og ræddi næstu skref og framtíðarsýn skólans í þessari vegferð. Lykilatriði í þeirri þróunarvinnu sem nú er í gangi er að mannkostir séu sýnilegir í skólastarfinu öllu og samofnir bæði kennslu og skólabrag.
Verkefnið er um margt einstakt, ekki síst fyrir þær sakir að það hefur þróast í gegnum starfendarannsóknir kennara sem og samtal og samstarf milli nemenda og alls starfsfólks skólans.
Breyttir tímar, breytt nálgun
Það sem gerir mannkostamenntun í FMOS sérstaklega heillandi er að hún tekur á áskorunum nútímasamfélags með persónulegri nálgun. Hún veitir nemendum verkfæri til að takast á við lífið af hugrekki, sýna seiglu í erfiðum aðstæðum, virða aðra og rækta forvitnina; verkfæri sem eru nauðsynleg til að byggja upp farsælt líf.
Næstu skref í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ eru að endurskoða stefnu skólans með mannkostamenntun að leiðarljósi svo hún verði órjúfanlegur hluti alls skólastarfsins.
Björk Margrétardóttir,
Hrafnhildur Þórhallsdóttir
og Vibeke Svala Kristinsdóttir