Eir í þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar í 20 ár

Eybjörg H. Hauksdóttir

Eir hjúkrunarheimili hefur verið í samstarfið við Mosfellsbæ um þjónustu til íbúa sveitarfélagsins síðan þann 7. júlí 2005 en þá var undirritaður rammasamningur aðila um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ.
Þá var sveitarfélagið talsvert minna, með lítilli þjónustumiðstöð að Hlaðhömrum auk um tuttugu íbúða fyrir aldraða. Síðan hefur þjónustumiðstöðin stækkað og þjónustuíbúðum fjölgað umtalsvert. Eir hefur jafnframt tekið við framkvæmd heimaþjónustu fyrir Mosfellsbæ, þ.á m. matarþjónustunni, sem og heimahjúkrun fyrir íbúa Eirhamra. Þá hefur bæst við dagþjálfun að Eirhömrum og heilt hjúkrunarheimili, Hamrar, sem er sambyggt þjónustumiðstöðinni.
Undanfarin misseri hefur svo Eir, í áframhaldandi góðu samstarfi við Mosfellsbæ, unnið að fjölgun dagþjálfunarrýma, stækkun hjúkrunarheimilisins og aukinni samþættri þjónustu til aldraðra í gegnum tilraunaverkefni stjórnvalda „Gott að eldast“.
Eir leggur mikið upp úr að veita faglega og góða þjónustu til íbúa Mosfellsbæjar, sem og annarra skjólstæðinga sinna. Gerðar eru þjónustukannanir með reglubundnum hætti og niðurstöður þeirra nýttar í úrbótavinnu innan starfseminnar. Enda er eðli þjónustustarfsemi þannig að alltaf þarf að halda sér á tánum og yfirleitt hægt að finna tækifæri til að gera betur.
Mosfellsbær framkvæmdi þjónustukönnun á meðal notenda heimaþjónustu Mosfellsbæjar árið 2024 og skilaði ítarlegri niðurstöðuskýrslu. Ánægjulegt var að sjá að 100% svarenda upplifa vingjarnlegt viðmót frá starfsfólkinu okkar sem sinnir félagslegu innliti og 99% starfsfólks sem sinnir þrifum. Þá sögðust 79% svarenda vera ánægðir með félagslegu innlitin, og enginn var óánægður (hlutlausir 21%). Einnig sögðu 100% svarenda heimsenda matinn lystugan og enginn var óánægður með matinn (hlutlausir 43%). Einnig komu fram góðar ábendingar, t.d. um að heimsendi maturinn bærist of snemma dags. Er verið að leita leiða til að koma til móts við það en mikil aukning hefur orðið á heimsendingu matar undanfarin ár.
Þó skýrslur séu nauðsynlegar, þá finnst mér sjálfri gott að heyra af og til beint frá fólkinu okkar. Í því skyni tók ég rölt um Hamra um daginn og spjallaði við nokkra íbúa sem ég hitti þar á göngunum. Á stuttum tíma náði ég spjalli við um fjórðung allra íbúa Hamra, enda lítið heimili. Ég spurði þá hvernig þeim liði og hvernig þeim þætti þjónustan vera hjá okkur. Allir sem ég hitti fullvissuðu mig um að þeir fengju nóg að borða hjá okkur, þætti maturinn almennt bragðgóður og að þeim liði mjög vel á Hömrum. Sem mér þótti mjög vænt um að heyra.
Við á Eir og Hömrum viljum gera vel í þjónustu við okkar skjólstæðinga en við erum auðvitað ekki gallalaus. Við erum mannleg og viljum vita af því þegar við getum gert betur.
Því hvetjum við fólk til að nota ábendingarhnappinn okkar á heimasíðunni okkar, www.eir.is til að koma á framfæri skilaboðum til okkar um það sem betur má fara.
Við erum ákaflega stolt af því góða samstarfi sem við höfum átt við Mosfellsbæ í gegnum árin og viljum þakka Mosfellingum fyrir samfylgdina síðastliðin 20 ár. Framtíðin er björt og við viljum gera okkar til að það verði alltaf gott að eldast í Mosfellsbæ.

Eybjörg H. Hauksdóttir, forstjóri Eirar, Skjóls og Hamra
og Mosfellingur.