Niðurskurður í grunnskólum Mosfellsbæjar 2025

Ásgeir Sveinsson

Þegar meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar lagði fram og samþykkti fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2025, bentum við, fulltrúar D-lista í bæjarstjórn á að það væru gul og jafnvel rauð blikkandi ljós í fjármálum bæjarins sem þyrfti að gefa gaum og bregðast við að okkar mati.
Við bentum á að annað árið í röð væru engar tillögur eða hugmyndir sem lægju fyrir um sparnað eða niðurskurð til að mæta auknum útgjöldum auk þess sem rekstur bæjarins væri ekki sjálfbær þar sem rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs fyrir árið 2025 væri áætluð neikvæð um 41 milljón.
Við spurðum fulltrúa meirihlutans hvort ekki ætti að bregðast við neikvæðri fjárhagsstöðu bæjarins, og svörin sem við fengum voru þau að kynna ætti sparnaðartillögur í byrjun árs 2025.

Átakið „Börnin okkar“
Þegar fjárhagsáætlunin var lögð fram í nóvember 2024 var átakið „Börnin okkar“ kynnt. Átak sem á að stuðla að velferð barna og unglinga í Mosfellsbæ og koma til móts við auknar áskoranir, en í því felast aðgerðir sem efla forvarnir, barnaverndarstarf og fleiri mál sem snúa meðal annars að starfi í skólum bæjarins.
Tilkynnt var að setja ætti 100 milljónir í verkefnið á þessu ári. Mikið hefur farið fyrir þessu verkefni og það vel kynnt í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af fulltrúum meirihlutans enda allir sammála um að þetta sé mjög þarft og jákvætt framtak.

Elín María Jónsdóttir

Við spurðum hvar ætti að taka þetta fjármagn og hvort skorið yrði niður í málefnum barna og unglinga á öðrum sviðum til að mæta þessum viðbótarkostnaði og svarið við því var að það ætti ekki að gera.

Skólarnir eiga að spara 100 mill­jónir á árinu 2025
Nú hefur meirihlutinn ákveðið að grunnskólar Mosfellsbæjar þurfi að spara allt að 100 milljónir á þessu ári.
Upphæðir eru misjafnar milli skóla en meðal upphæð er í kringum 20 milljónir á hvern skóla.
Þessi krafa um sparnað kemur mjög illa við rekstur skólanna sem glíma við stærri og flóknari áskoranir með hverju árinu. Til að ná þessum sparnaðarmarkmiðum er ljóst að skólarnir þurfa að skerða þjónustu og mögulega fækka stöðugildum.
Það vekur athygli okkar að þessar sparnaðarkröfur hafa hvorki verið kynntar í fræðslunefnd né í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, meirihlutinn hefur heldur ekki séð ástæðu til að kynna málið í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, eins og gert var þegar 100 milljónir voru settar í átakið „Börnin okkar“ fyrir þremur mánuðum.

„Börnin okkar“ í Mosó fengu og misstu
Þessar aðgerðir koma mjög á óvart miðað við tal fulltrúa meirihlutans um mikilvægi þess að auka fjármagn til barna og ungmenna.
Settar voru 100 milljónir í átakið „Börnin okkar“ og næsta skref meirihlutans þremur mánuðum seinna er að skipa skólum bæjarins að spara allt að 100 milljónir í ár í rekstri.Það lítur því þannig út að átakið „Börnin okkar“ eigi að fjármagna með sparnaði í skólum bæjarins. Það er slæm ákvörðun að okkar mati og ekki í samræmi við það sem var lagt upp með.

Þessi vinnubrögð meirihlutans eru til skaða fyrir skólasamfélagið í Mosfellsbæ sem má ekki við þessum niðurskurði.
Til viðbótar við þetta hefur bæjarstjóri lýst því yfir að skoða þurfi niðurskurð á þjónustu bæjarins til að geta mætt þeim kröfum sem nýgerður kjarasamningur kennara felur í sér.
Sá niðurskurður má ekki koma niður á skólum bæjarins.

Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn og fræðslunefnd skora á meirihlutann að endurskoða ákvörðun sína um niðurskurðarkröfu á skóla Mosfellsbæjar á þessu ári.

Ásgeir Sveinsson
Oddviti D-lista og fulltrúi í fræðslunefnd
Elín María Jónsdóttir
fulltrúi í fræðslunefnd