Fimm nýir stungupallar í Lágafellslaug

Sundkappinn Kolbeinn Flóki Gunnarsson var drifkrafturinn í því að nýir löglegir keppnisstungupallar eru nú komir í Lágafellslaug.
„Pallarnir sem voru í Lágafellslaug voru ekkert sérstaklega góðir svo einn daginn hugsaði ég með mér að panta tíma með bæjarstjóranum og leggja undir hana hvort hægt væri að fá nýja betri palla í laugina,“ segir Kolbeinn Flóki sem er 12 ára og hefur æft sund í fimm ár með sunddeild Aftureldingar.

Getum æft stungur almennilega
„Núna eru komnir fimm nýir stungupallar sem eru alveg frábærir. Helsti munurinn á pöllunum sem voru og þeim nýju er að gömlu pallarnir hölluðu ekki og höfðu heldur ekki sandpappírsgrip.
Nýju pallarnir eru keppnispallar og þetta munar miklu fyrir okkur að geta æft stungur almennilega,“ segir Kolbeinn og bætir við að allir í sunddeildinni séu mjög glaðir með breytinguna.